Ræða myndun nýs meirihluta í Hveragerði

Sandra Sigurðardóttir, oddviti Okkar Hveragerðis, og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti …
Sandra Sigurðardóttir, oddviti Okkar Hveragerðis, og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Hveragerði, staðfesta báðar að unnið sé að myndun nýs meirihluta. Samsett mynd

Viðræður um myndun nýs meirihluta í Hveragerði hófust í morgun milli fulltrúa Framsóknarflokksins og Okkar Hveragerðis. Þetta staðfesta oddvitar framboðanna í samtali við blaðamann. Þá segir Sandra Sigurðardóttir, oddviti Okkar Hveragerðis, það vera forgangsmál að nýr bæjarstjóri verði ráðinn til starfa á faglegum grunni og bendir því allt til þess að 16 ára setu Aldísar Hafsteinsdóttur í embætti bæjarstjóra sé að ljúka.

Aldís var í fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins en flokkurinn hlaut 32,8% atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru á laugardag og fékk því aðeins tvo fulltrúa kjörna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með hreinan meirihluta í bæjarstjórn Hveragerðis frá árinu 2006 og hlaut 52,4% í kosningunum 2018 og fékk þá fjóra fulltrúa kjörna.

Flest atkvæði til Okkar Hveragerðis

Okkar Hveragerði fékk flest atkvæði í kosningunum að þessu sinni. Framboðið fékk 39,6% og fær þrjá fulltrúa í bæjarstjórn Hveragerðis. Framboðið hefur bætt við sig frá 2018 þegar það hlaut 33,1% atkvæða. „Að sjálfsögðu vonuðumst við að við myndum bæta aðeins við okkur. […] En þetta kom okkur í opna skjöldu og erum alveg himinsæl með traustið sem okkur er sýnt,“ segir Sandra. „Ég held það hafi verið samstaða í bænum. Fólk er tilbúið í breytingar eftir sextán ár með hreinum meirihluta Sjálfstæðisflokksins.“

Framsóknarflokkurinn sá mikla fylgisaukningu milli kosninga, úr 14,5% árið 2018 í heil 27,5% og fær tvo fulltrúa í bæjarstjórn. „Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða og erum mjög stolt af þessum árangri. Maður er þakklátur fyrir stuðninginn,“ segir Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti flokksins.

Jóhanna segir viðræður um meirihluta hafa hafist eftir umleitanir framboðs Okkar Hveragerðis. „Viðræðurnar eru hafnar. Enda teljum við það eðlilega túlkun á niðurstöðunum. Kjósendur eru væntanlega að kalla eftir breytingum og því eðlilegt að fara í þessa áttina. […] Við eigum eftir að sjá hvernig þetta mun ganga allt saman, en vonandi gengur þetta vel.“

mbl.is