Sagt upp en vann nú kosningarnar

Þorgeir Pálsson, oddviti T-lista Strandabandalagsins.
Þorgeir Pálsson, oddviti T-lista Strandabandalagsins.

Þorgeiri Pálssyni var sagt upp sem sveitarstjóra Strandabyggðar fyrir rúmu ári síðan. Strandabandalagið, með Þorgeir í oddvitasætinu, sigraði í sveitarstjórnarkosningunum í gær með 57 prósenta atkvæða.

„Ég hef alla tíð frá því mér var sagt upp störfum fundið fyrir stuðningi íbúa. Ég hugsa ég væri ekkert hér nema af því við fjölskyldan fundum stuðning. Í þessari kosningabaráttu þá höfum við alveg látið þetta mál vera. Fólk hefur ekkert viljað blanda þessu saman. Það sem skiptir mestu máli núna er að fólk vildi breytingar sem við boðuðum, við erum ofboðslega stolt og þakklát fyrir það,“ segir Þorgeir í samtali við mbl.is.

„Hér hefur kannski vantað að menn séu tilbúnir að skoða alla kosti. Við viljum skoða alla kosti, hvort sem það er atvinnuuppbygging eða menntamál eða annað. Það eru breytingar sem fólkinu líkaði og vildi sjá.“

Sagt upp án efnislegra skýringa

Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í síðasta mánuði uppsögn Þorgeirs ólögmæta, en dómurinn taldi sveitarfélagið hafa sagt honum upp án efnislegra skýringa. Er þetta því annar sigur Þorgeirs á stuttum tíma.

Verður þú næsti sveitarstjóri Strandabyggðar?

„Við lögðum upp með það að ég yrði starfandi oddviti. Við myndum ekki ráða sveitarstjóra, að minnsta kosti ekki til að byrja með, í staðinn yrði ég starfandi oddviti í fullu starfi. Ástæðan er sú fyrst og fremst að það eru mörg mál sem við þurfum að fara í, þar á meðal sameiningarmál. Við töldum það skilvirkara svona,“ segir Þorgeir en hann segist gríðarlega þakklátur og stoltur af íbúum sveitarfélagsins fyrir það að sýna honum traust og fyrir að vera til í breytingar.

mbl.is