Svona fór nóttin

Beðið eftir fyrstu tölum í Efstaleiti.
Beðið eftir fyrstu tölum í Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrstu tölur úr sveitarstjórnarkosningunum bárust laust fyrir klukkan níu úr sameinuðu sveitarfélagi Svalbarðshrepps og Langanesbyggðar þar sem tveir listar buðu fram en H-listi Betri byggðar hafði betur og hlaut 58,9 prósent atkvæða. 

Skömmu síðar bárust lokatölur frá Vopnafjarðarhreppi þar sem Framsókn sigraði og munaði aðeins fimm atkvæðum. Segja má að úrslitin hafi sett tóninn fyrir það sem koma skyldi. 

Framsókn líflína fyrir meirihlutasamstarf

Af höfuðborgarsvæðinu bárust fyrstu tölur frá Kópavogi um klukkan hálf ellefu. Fjöldi kjörinna fulltrúa breyttist ekki eftir fyrstu tölur og heldur meirihlutinn. Framsóknarflokkurinn bætti við sig manni en Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einum en Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa starfað saman á kjörtíabilinu í meirihluta.

Y-listi Vina Kópavogs sem bauð fram í fyrsta skipti fengu tvo fulltrúa kjörna í bæjarstjórn Kópavogs. 

Sömu sögu var að segja í Hafnarfirði, þar sem meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hélt þrátt fyrir tap Sjálfstæðisflokksins á einum manni þar sem Framsókn bætti við sig manni. 

Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknar í Hafnarfirði, er í lykilstöðu til samninga um meirihlutasamstarf. Hann sagði í samtali við mbl.is í kvöld eftir fyrstu tölur að eðlilegt væri að ræða fyrst við Sjálfstæðisflokkinn. 

Samfylkingin í Hafnarfirði fékk fjóra fulltrúa kjörna í bæjarstjórn, jafn marga og Sjálfstæðisflokkurinn og stórbætti fylgi sitt í bænum. 

Meirihlutinn fallinn í Reykjavík

Töluverð bið var eftir fyrstu tölum frá Reykjavík. Fregnir bárust af því á miðnætti að um eins og hálfs tíma bið væri eftir fyrstu tölum vegna breyttra reglugerða við framkvæmd kosninga. Fyrstu tölur bárust því ekki fyrr en rúmlega hálf tvö í nótt og breyttist fulltrúafjöldi ekki eftir frekari talningu. 

Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna og Viðreisnar féll í Reykjavík. Þar vegur þyngst meiriháttar fylgisaukning Framsóknar, með Einar Þorsteinsson í broddi fylkingar. Flokkurinn átti engan borgarfulltrúa á nýliðnu kjörtímabili, en fengu nú fjóra menn kjörna. Framsókn hefur aldrei fyrr náð slíku fylgi í Reykjavíkurborg.

Sjálfstæðisflokkurinn var stærstur flokka, með 24,5 prósent fylgi ef frá eru taldir auðir og ógildir seðlar. Það er samt sem áður minnsta fylgi sem flokkurinn hefur fengið í borginni frá upphafi. 

Samfylkingin, sem leiddi meirihluta í borgarstjórn, hlaut undir tuttugu prósent atkvæða alls, en 20,3 prósent ef frá eru taldir auðir og ógildir seðlar. 

Píratar sem mælst höfðu með fjóra fulltrúa í borgarstjórn, hlutu þrjá menn kjörna. Kristinn Jón Ólafsson sem sat í fjórða sæti listans ræddi við mbl.is: 

Meirihluti steinlá í Mosfellsbæ. Framsóknarflokkurinn varð stærstur með 32,3 prósent fylgi en átti enga fulltrúa í bæjarstjórn fyrir. Sjálfstæðisflokkur hlaut 27,3 prósent fylgi og L-listi Vina Mosfellsbæjar hlutu 13 prósent atkvæða. 

Í Garðabæ hélt hreinn meirihluti Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hlaut tæpan helming atkvæða og sjö fulltrúa af ellefu. Framsókn fékk einn mann kjörinn í bæjarstjórn, þann fyrsta í fjölda ára. 

Gengið var til kosninga í 64 sveitarfélögum og liggja úrslit fyrir í þeim öllum. Hér að neðan má sjá samantekt um hvar meirihlutar féllu um allt land. Þá má nálgast lokatölur og aðrar fréttir af kosningunum á kosningavef mbl.is.

mbl.is