Útilokar enn Sjálfstæðismenn en opin fyrir Framsókn

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík. mbl.is/Ágúst Ólíver

Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata í Reykjavík kveðst ánægð með niðurstöður borgarstjórnarkosninganna sem fóru fram í gær en flokkurinn hefur aldrei náð jafn mörgum fulltrúum inn í borgarstjórn, eða alls þremur, og er hún þakklát fyrir það.

Dóra Björt segir mikla stemningu hafa verið í gær á kosningavökunni en hún þurfti þó að fara heim aðeins fyrr þar sem hún er með barn á brjósti.

„Það er gríðarlega ánægjulegt hvað við Píratar náum góðum árangri. Við erum að bæta mikið við okkur, heilum nýjum borgarfulltrúa. Við höfum bætt við okkur í öllum kosningum frá því að við tókum sæti í borgarstjórn.

Fyrst vorum við með einn, svo tvo og núna þrjá þannig að við virðumst vera að vinna á og ég held að fólk sjái að við erum traustsins verð og stöndum fyrir dyggri og traustri stjórn borgarinnar.“

Geta ekki unnið með sjálfstæðismönnum

Hún kveðst opin fyrir samstarfi með flestum flokkum en útilokar þó enn að vinna með Sjálfstæðisflokknum, sem hlaut í gær sex borgarfulltrúa, sem er meira en nokkur annar flokkur. Segir hún flokkinn ekki vera trúverðugan í helsta baráttumáli Pírata, baráttan gegn spillingu. 

„En við erum opin fyrir öðru samstarfi en það er eitthvað sem við verðum að skoða næstu daga.“

Aðspurð kveðst hún opin fyrir samstarfi með Framsóknarflokknum, sem hefur m.a. talað fyrir barnvænu samfélagi, sem að sögn Dóru er einnig málefni sem Píratar brenna fyrir.

„Ég myndi alveg sjá flöt á slíku samstarfi.“

Hún segir þó eiga eftir að koma í ljós hvernig næstu dagar spilast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert