Ekki óeðlilegt að Framsókn fái borgarstjórastólinn

Margir telja Framsóknarflokkinn hafa borið sigur úr býtum í borgarstjórnarkosningunum. …
Margir telja Framsóknarflokkinn hafa borið sigur úr býtum í borgarstjórnarkosningunum. Einar Þorsteinsson oddviti segir flokkinn ekki gera kröfu um borgarstjórastólinn í viðræðunum sem eru framundan en segir þó einhverja hafa bent á að það væri ekki óeðlilegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir ummæli borgarstjóra um að Píratar, Samfylkingin og Viðreisn ætli að fylgjast að í viðræðum næstu daga um myndun nýs meirihluta, muni ekki hafa áhrif á það hvernig flokkurinn muni haga sínum viðræðum. 

Hann ætlar að reyna að funda með sem flestum oddvitum framboða sem eiga fulltrúa í borgarstjórn í dag og segir stöðuna opna. Þá liggi ekki fyrir hvort flokkurinn muni leita frekar til hægri eða vinstri í samstarf og segir hann ekkert vera í hendi eins og er.

„Við erum aðeins að kanna landslagið og hug þeirra til næstu fjögurra ára. Þetta er allt saman óformlegt og opið samtal. Þeir verða vinnufélagar mínir til næstu fjögurra ára og þetta byrjar bara með svona óformlegu samtali.“

Borgarstjórastóllinn ekki skilyrði

Hann segir borgarstjórastólinn ekki vera skilyrði af hálfu Framsóknar í viðræðunum sem eru framundan. Flokkurinn sé þó reiðubúinn að taka að sér embættið ef svo ber undir. Kjósendur kalli eftir breytingum á stefnu borgarinnar og pólitískri forystu. Það sé skýrt af niðurstöðum kosninganna. Framsókn fékk fjóra borgarfulltrúa og vantaði einungis um 300 atkvæði upp á að fá þann fimmta inn. 

En þætti þér eðlilegast að borgarstjórastóllinn færi til Framsóknar?

„Já, það hefur verið bent á það. Álitsgjafar hafa sagt að við séum sigurvegarar kosninganna og ég tek undir það. En mér finnst ekki skynsamlegt að vera með skilyrði eða fyrirfram kröfur um embætti á þessum tímapunkti. Þetta snýst um málefni fyrst og fremst og hvernig við myndum meirihluta sem nær árangri næstu fjögur ár, því næstu fjögur ár eru gríðarlega mikilvæg í lífi borgarbúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert