Framsókn í lykilstöðu við meirihlutamyndun

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framsóknarflokkurinn undir forystu Einars Þorsteinssonar er í lykilstöðu við myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur eftir að meirihluti Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna féll í kosningunum á laugardag. Hvorki Sjálfstæðisflokkur né Samfylking geta myndað nýjan meirihluta án Framsóknar nema þeir snúi bökum saman, sem verður að teljast ólíklegri kostur.

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að þegar séu hafnar þreifingar um meirihlutasamstarf Samfylkingar, Framsóknar og Pírata, en Hildur Björnsdóttir oddviti sjálfstæðismanna mun einnig hafa rætt við forystumenn annara flokka um möguleika í meirihlutasamstarfi. Sagt er að í þeim efnum útiloki hún ekkert.

Allt er það eðli máls samkvæmt afskaplega skammt á veg komið og aðallega skipst á hugmyndum um meirihlutakosti, þó að sögn hafi einnig verið kynntar ólíkar hugmyndir um borgarstjóraembættið.

Einar sigurvegari kosninganna

Framsókn meira en sexfaldaði fylgi sitt frá síðustu kosningum, en þá fékk hún aðeins 2,9% atkvæða og engan mann kjörinn. Að þessu sinni hlaut flokkurinn 18,7% atkvæða og fjóra menn kjörna. Þetta er mesta fylgi sem flokkurinn hefur átt að fagna í höfuðborginni frá upphafi vega.

Framsóknarmenn eru eðlilega ánægðir með sinn mann og telja að honum beri borgarstjórastóllinn, þótt sjálfur segist hann ekki vilja setja nein skilyrði um það. Hins vegar sagðist hann í gær reiðubúinn til þess að taka það að sér „ef málin æxluðust svo“.

Samfylking tapaði hins vegar fimmtungi fylgis síns í kosningunum um helgina og tveimur borgarfulltrúum. Viðreisn tapaði einnig nokkru fylgi og við það féll annar manna hennar úr borgarstjórn. Við það var meirihlutinn rækilega fallinn, en í gær greindu Vinstri græn frá því að þau myndu ekki taka þátt í meirihlutasamstarfi á þessu kjörtímabili og við það varð ómögulegt að lappa upp á meirihluta Dags B. Eggertssonar borgarstjóra án aðkomu Framsóknar, þar sem Sósíalistar hafna samstarfi við Viðreisn.

Sjálfstæðismenn fengu talsvert minna fylgi en í kosningunum 2018 og missti líkt og Samfylking tvo borgarfulltrúa. Þeir eiga því einnig örðugt með að mynda meirihluta, m.a. þar sem bæði Píratar og Sósíalistar hafna samstarfi við þá, en eins hefur Dagur B. Eggertsson sagt að hann ætli sér ekki í samstarf með Sjálfstæðisflokknum, þar beri of mikið á milli í málefnaáherslum og framtíðarsýn.

Í Morgunblaðinu í dag er ítarleg umfjöllun um úrslit og afleiðingar sveitarstjórnakosninga um land allt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert