Framsóknarflokkurinn í lykilstöðu í Hafnarfirði

Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.
Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hélt velli í Hafnarfirði í sveitastjórnarkosningunum á laugardaginn. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 30,7% atkvæða og fjóra menn. Samfylkingin fékk einnig fjóra menn og 29%. Framsóknarflokkurinn fékk 13,7% og tvo menn og Viðreisn fékk einn mann og 9,1% atkvæða.

Framsóknarflokkurinn bætti við sig manni og er með tvo bæjarfulltrúa. Nýr oddviti, Valdimar Víðisson, segist hafa skynjað í síðustu viku kosningabaráttunnar að möguleiki væri að ná tveimur mönnum inn.

„Við fundum fyrir þessu síðustu vikuna. Þá fengum við mörg símtöl og margir komu á kosningaskrifstofuna. Við fundum fyrir meðbyr og vonuðumst eftir því að ná inn tveimur þegar okkur fannst vera farið að glitta í það,“ sagði Valdimar þegar Morgunblaðið hafði samband í gær. Hann sagði það hafa komið skýrt fram í kosningabaráttunni að fulltrúar meirihlutans myndu byrja á því að funda ef meirihlutinn héldi velli eins og raunin varð.

„Meirihlutinn hélt og við munum hittast og kanna grundvöll fyrir áframhaldandi samstarfi. Það sögðum við allan tímann í baráttunni. En það er ekki farið af stað enn þá nema bara óformlegt spjall.“

Mun Framsóknarflokkurinn gera tilkall til þess að vera í stærra hlutverki en áður við stjórnun sveitarfélagsins í ljósi þess að flokkurinn bætti við sig manni? „Við tvöfölduðum nánast fylgi okkar frá því síðast. Það gefur augaleið að við viljum fylgja því eftir því með að hafa meiri áhrif,“ segir Valdimar.

Guðmundur tilbúinn í viðræður

Guðmundur Árni Stefánsson tekur aftur sæti í bæjarstjórn eftir tæplega þrjátíu ára fjarveru en hann var bæjarstjóri í Hafnarfirði 1986-1993. Guðmundur er oddviti Samfylkingarinnar sem bætti við sig liðlega 1.400 atkvæðum frá 2018.

„Ég er afskaplega glaður með þessa niðurstöðu og það er ljóst að jafnaðarmenn eru orðnir þungavigt í pólitíkinni í Hafnarfirði á nýjan leik. Það er þörf á því og við erum þakklát. Jafnaðarmenn eiga sterkar sögulegar rætur í bænum og hafa oft verið hér ráðandi afl.

Það eru tveir sigurvegarar í þessum kosningum en það eru við og Framsóknarflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn fær sína næstverstu útkomu í langan tíma. Ég lít þannig til að kallaðir séu til verka þeir sem sigruðu í kosningunum. Ég leyni því ekki að þess vegna hef ég sett mig í samband við oddvita Framsóknarflokksins og óskað eftir samtali um myndun nýs meirihluta,“ segir Guðmundur Árni.

Áfram stærsti flokkurinn

Rósa Guðbjarsdóttir, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagðist í samtali við blaðið í eiga von á því að funda með Valdimari eftir helgi um framhaldið. Flokkurinn tapaði manni í kosningunum.

„Ég er fyrst og fremst ánægð með að Sjálfstæðisfokkurinn sé áfram stærsti flokkurinn í bæjarstjórn Hafnafjarðar. Bæjarbúar létu í ljós ánægju sína með störf meirihlutans. Við hefðum viljað ná inn fimmta manninum en við erum áfram stærst og meirihlutinn heldur. Ég er afar stolt af því,“ sagði Rósa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »