„Hvaða skilaboð er Reykjavíkurborg að senda okkur?“

Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins.
Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins.

Allir flokkar sem fengu sæti í borgarstjórn í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum eru á móti flugvellinum í Vatnsmýri og vilja sjá byggð á því svæði. Þetta sagði Þorgrímur Sigmundsson, varaþingmaður Miðflokksins, á Alþingi. Hann sagði flugvöllinn mikilvægan fyrir sjúkraflug.

„Enda stutt á Landspítalann, og sá sem hér stendur hefur persónulega reynslu af því hversu mikilvægt það er að vegalengdin verði ekki aukin,“ sagði Þorgrímur. 

Hann sagði að nú væri hafin uppbygging á nýjum spítala og það yrði að taka slaginn; að verja stöðu flugvallarins.

Horft yfir flugvallasvæðið.
Horft yfir flugvallasvæðið. mbl.is/Árni Sæberg

Flugvöllurinn er mikilvægur fyrir hér um bil alla opinbera stjórnsýslu og aðra þjónustu ríkisins sem er staðsett í Reykjavík, höfuðborg allra Íslendinga, ekki bara sumra — allra Íslendinga. Það er ekki sjálfgefið, hvorki að öll þjónustan sé í Reykjavík né að Reykjavík sé höfuðborg Íslendinga. Það er ákvörðun. Það fer ekki bara eftir massa fólks. Hvaða skilaboð er Reykjavíkurborg að senda okkur, fólkinu úti á landi?“ spurði Þorgrímur.

Hann sagði fólk á landsbyggðinni hafa miklar áhyggjur af þessari þróun, sér í lagi eftir kosningarnar: „Þar sem flokkar sem ýmist slá í eða úr eða hafna flugvellinum með öllu auka fylgi sitt, jafnvel flokkur sem áður kenndi sig við flugvallarvini,“ sagði Þorgrímur en Framsóknarflokkurinn bauð fram í borgarstjórnarkosningum 2014 sem Framsókn og flugvallarvinir.

mbl.is