Vill SPBJ inn í umræðuna

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista í Reykjavík.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista í Reykjavík, segist hafa heyrt í nokkrum oddvitum í dag, í óformlegu spjalli. 

Sanna leggur áherslu á að reynt verði á miðju-vinstri samstarf. „Ég held að það sé alveg hægt og mér finnst sérstakt að sjá að það sé ekki verið að draga upp þá möguleika,“ segir Sanna. 

Á meðal raunhæfra möguleika sem Sanna nefnir um miðju-vinstri stjórn væri tveggja manna meirihluti Samfylkingar, Pírata, Framsóknar og Sósíalista.

Línan opin

„Það er auðvitað gott að heyra í fólki en svo vitum við auðvitað hverjir eru líklegir til að vinna saman og hverjir ekki. Línan er alltaf opin hjá mér,“ segir Sanna. 

Hún var ekki tilbúin að telja upp hverjum hún hefur heyrt í en segist bæði hafa tekið á móti símtölum og hringt í aðra. 

Einar ekki enn hringt

Hún segir Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknar í borginni, ekki enn hafa heyrt í sér. Hún hefur ekki heldur heyrt í þeim sem að myndunarsamstarfinu standa, af fráfarandi meirihlutaflokkum, það er Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum. Áður hefur Sanna þó útilokað samstarf við Viðreisn. 

Heldur þú að fólk hræðist að þú gerir of miklar kröfur í miðju-vinstri samstarfi?

„Nei ég held ekki. Við verðum bara að tala saman og fara yfir hlutina. Við vitum að borgarbúar voru að kalla eftir breytingum og að meirihlutinn féll. Eins og ég sé þetta, þá met ég stöðuna þannig að það hafi verið ákall um að einblína á húsnæðismálin og grunnvelferð, sem við komum með inn í umræðuna. Við bættum við okkur manni, svo að ég held að það sé mikil þörf á að fara yfir þau mál.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert