Oftast strikað yfir Hildi

Hildur Björnsdóttir
Hildur Björnsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oftast var strikað yfir nafn Hildar Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum. Alls var strikað 290 sinnum yfir nafn Hildar. 

Þá var strikað 123 sinnum yfir nafn Kjartans Magnússonar, sem skipaði 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins, og 129 sinnum yfir nafn Mörtu Guðjónsdóttur sem var í því fjórða. Þá var strikað 117 sinnum yfir nafn Helga Áss Grétarssonar sem var í sjöunda sæti listans. 

Á meðal annarra flokka en Sjálfstæðisflokks var oftast strikað yfir nafn Hjálmars Sveinssonar sem skipaði 5. sæti lista Samfylkingarinnar, alls 114 sinnum. Strikað var yfir nafn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 67 sinnum. 

Hjá Vinstri grænum var oftast strikað yfir nafn Lífar Magneudóttur, eða 65 sinnum. Á meðal frambjóðenda Pírata var oftast strikað yfir nafn Alexöndru Briem, eða 45 sinnum, og á meðal frambjóðenda Sósíalista var oftast strikað yfir Trausta Breiðfjörð Magnússon, alls 13 sinnum. 

Hjá Flokki fólksins var oftast strikað yfir nafn oddvitans Kolbrúnu Baldursdóttur, eða 8 sinnum, og hjá Viðreisn var oftast strikað yfir nafn Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, alls 59 sinnum. Á lista Framsóknarflokksins var oftast strikað yfir Einar Þorsteinsson, alls 26 sinnum. 

Fram kemur í kosningaskýrslu Reykjavíkurborgar að kosningaþátttaka hafi verið 61,1% og að gildir atkvæðaseðlar hafi verið 97,7%. 

mbl.is