Vill Líf í viðræður um meirihluta

Oddviti Sósíalistaflokksins telur flokkinn ekki eiga samleið með Viðreisn.
Oddviti Sósíalistaflokksins telur flokkinn ekki eiga samleið með Viðreisn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík, er bjartsýn á að flokkurinn komist í meirihlutasamstarf. Hún hefur átt óformlegt spjall við aðra oddvita frá kosningum en eins og flestir vill hún lítið gefa upp um nákvæma stöðu mála.

Hún segir þó ófrávíkjanlegt að fara í samstarf með Viðreisn, þrátt fyrir að það myndi þýða að Sósíalistar myndu komast inn í meirihluta, enda horfi sá flokkur til markaðslausna þegar kemur að því að leysa húsnæðisvandann. „Ég sé ekki hvernig við ættum að geta farið í þessa félagslegu húsnæðisuppbyggingu sem þarf að eiga sér stað og er í takt við það sem kjósendur voru að kalla eftir.“

Píratar leggi ekki mikla áherslu á stéttir

Sanna telur mikilvægt að lögð sé áhersla á að styrkja félagslega innviði og telur hún Framsókn, Vinstri græna, Samfylkinguna og Sósíalista ákjósanlega flokka til að mynda slíka félagshyggjustjórn.

Finnst þér Píratar ekki eiga heima í slíkri jöfnu?

„Mér finnst Píratar kannski ekki hafa talað svona mikið um stéttastjórnmál eða stéttaátökin í samfélaginu. En eins og ég segi þá höldum við áfram að tala saman og ég auðvitað tek öllum símtölum og hringi líka í fólk. Við þurfum bara að halda áfram að tala saman.“

Skömmu eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir gaf Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna út að flokkurinn myndi ekki sækjast eftir viðræðum um meirihlutasamstarf.

Spurð hvort hún telji líklegt að Líf muni snúast hugur, segir Sanna erfitt að svara fyrir slíkt.

„Ég myndi endilega vilja fá hana með en hún gaf auðvitað út að hún ætli ekki að vera í meirihluta.“

Samfylkingin að binda sig

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði skömmu eftir kosningar að oddvitar flokkanna sem skipuðu meirihlutann á síðasta kjörtímabili, að Vinstri grænum undanskildum, ætluðu að fylgjast að í viðræðum næstu daga um myndun nýs meirihluta.

Spurð hvort hún geti hugsað sér að ganga inn í slíkt samstarf til að komast inn í meirihluta, og víkja þar með frá yfirlýsingu um að ganga ekki í samstarf með Viðreisn, svarar Sanna því neitandi.

Að hennar mati hefði verið eðlilegra fyrir flokkana að skoða fleiri valmöguleika og þykir henni Samfylkingin vera að binda sig. Væri ánægjulegra að þau myndu leita meira til vinstri en hægri.

mbl.is