Vonar að viðræður taki ekki of langan tíma

Valdimar Víðisson nýr oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.
Valdimar Víðisson nýr oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.

Viðræður um áframhaldandi meirihlutasamstarf Sjálfstæðiflokksins og Framsóknarflokksins í Hafnarfirði hófust í gær en flokkarnir eru samanlagt með sex fulltrúa af ellefu í bæjarstjórn.

Fyrir kosningarnar lá fyrir að meirihlutinn myndi hittast og ræða saman að því gefnu að hann myndi halda velli, sem hann svo gerði.

Sjálfstæðisflokkurinn missti að vísu bæjarfulltrúa og fór úr fimm í fjóra, en Framsóknarflokkurinn bætti við sig, líkt og víða annars staðar um landið, og fór því úr einum í tvo.

Þá fékk Samfylkingin fjóra fulltrúa kjörna og Píratar einn.

Er Framsóknarflokkurinn talinn vera í lykilstöðu í viðræðum um meirihlutasamstarf.

Breytt landslag

Valdimar Víðisson, nýr oddviti Framsóknar, segir breytt hlutföll í bæjarstjórn hafa áhrif á landslagið en að lítið sé að frétta af viðræðum, enda hófust þær bara í gær.

Þá telur hann ekki tímabært að ræða opinberlega um bæjarstjórastólinn eða um skiptingar innan bæjarstjórnar.

„Við erum bara enn í samtalinu og erum bara að halda því að okkur, allavega þessa daga. Við vonum að þetta taki ekkert alltof langan tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert