Ekki farin að ræða persónur og leikendur

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, oddviti Framsóknar í Reykjanesbæ, segir litla kjörsókn …
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, oddviti Framsóknar í Reykjanesbæ, segir litla kjörsókn áhyggjuefni og að vilji sé til þess að auka kjörsókn. Ljósmynd/Framsókn

Útlit er fyrir að línur skýrist í viðræðum um meirihlutasamstarf í Reykjanesbæ eftir helgi. Enn eru viðræðurnar óformlegar og segir oddviti Framsóknarflokksins í sveitarfélaginu að nú fari flokkarnir þrír, Framsókn, Samfylking og Bein leið, yfir málefnin og skoði hvort þau passi saman. Bæjarstjórasætið hefur ekki komið til umræðu.

Er margt búið að breytast hjá þessum flokkum síðan fyrir kosningar?

„Það er komið nýtt fólk og auðvitað hefur staðan breyst í sveitarfélaginu og við erum komin á betri stað. Við erum laus undan eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Hér hefur íbúum fjölgað alveg gríðarlega og tími uppbyggingar er að hefjast. Þannig að það er ýmislegt sem hefur breyst og við þurfum að horfa á það í þessari heildarmynd,“ segir Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, oddviti Framsóknar í Reykjanesbæ.

Framsókn bætti við sig bæjarfulltrúa í kosningunum og á nú þrjá. Samfylkingin hélt sama fjölda, þremur, og Bein leið sömuleiðis og er því með einn fulltrúa. Mynda þessir þrír flokkar fráfarandi meirihluta og styrktust því um einn mann í kosningunum.

Framsókn og Samfylking gætu ráðist í samstarf án Beinnar leiðar þó ákvörðun um slíkt hafi ekki verið tekin.

„Við þurfum ekkert að flýta okkur, við höfum til 7. Júní hérna í Reykjanesbæ, þá er fyrsti bæjarstjórnarfundur nýrrar bæjarstjórnar,“ segir Halldóra Fríða.

„Ætli línurnar skýrist ekki eftir helgi, hvort þetta verði að formlegu spjalli. Þá munum við örugglega gefa út einhverskonar yfirlýsingu.“

Margir sem vita ekki að þeir mega kjósa

Kjörsókn í Reykjanesbæ var einungis 47,1% þetta árið. Aðspurð segir Halldóra það áhyggjuefni.

„Hér er fjórðungur íbúa af erlendum uppruna. Við fögnum því hér að við erum með fjölmenningarlegt samfélag. Það eru alls ekki allir sem vita að þeir hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum þegar þeir hafa búið hér í þrjú ár. Það eru margir sem halda að þeir þurfi að hafa ríkisborgararétt m.a. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða og bæta okkur í upplýsingagjöf þannig að allir viti þeirra rétt,“ segir Halldóra.

„Ég er viss um að það séu allir á sama máli. Við viljum auðvitað hafa umboð sem flestra íbúa.“

Kjartan Már Kjartansson er núverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar og hefur starfað sem slíkur frá 1. September 2014 eða í um tvö kjörtímabil. Spurð hvort útlit sé fyrir að nýr bæjarstjóri taki við segir Halldóra:

„Það er ekkert farið að ræða neinar persónur og leikendur, við erum ekkert komin á það stig.“

mbl.is