Fundur með Einari hafi gengið vel

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík. mbl.is/Ágúst Ólíver

„Ég er búin að hitta Einar [Þorsteinsson] og sá fundur gekk bara mjög vel,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík. 

„Við áttum gott og almennt spjall enda finnst mér mikilvægt að Framsókn kynnist okkur öllum. Allir oddvitar utan við Framsókn þekkjast vel og hafa verið saman í borgastjórn í fjögur ár,“ segir Þórdís Lóa og bætir við að ekkert óeðlilegt sé við að Framsóknarfólk taki sér tíma og kynnist fólki „því það þarf að skapast traust til að vinna saman“.

Af heilum hug í viðræðubandalagi

Hún segir hlutina í meirihlutaviðræðum í raun bara hana þokast aðeins. „Við erum af heilum hug í þessu bandalagi. Ég geri ráð fyrir að Einar sé búinn að hitta alla og aðrir eru líka að tala saman og hittast,“ segir Þórdís Lóa og segist sjálf hafa heyrt í öllum oddvitum. 

Þórdís kýs að tjá sig ekki um að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar sem hún er með í viðræðubandalagi ásamt Pírötum, hafi enn ekki tekið símtali, eða hringt til baka í Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðismanna. 

Spurð hvort að hún hafi fengið viðbrögð frá baklandi sínu eða grasrót vegna bandalagsins segir Þórdís Lóa: „Ég er bara með fullt umboð og fékk það mjög skýrt á sunnudaginn. Það stendur og gengur vel og ég fæ fullan stuðning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert