Stefnan á undan bæjarstjórasálminum

Frá vinstri: Njáll Ragnarsson hjá Eyjalistanum, Eyþór Harðarsson hjá Sjálfstæðisflokknum …
Frá vinstri: Njáll Ragnarsson hjá Eyjalistanum, Eyþór Harðarsson hjá Sjálfstæðisflokknum og Íris Róbertsdóttir hjá Fyrir Heimaey. Mbl.is/Brynjólfur Löve

Viðræður um áframhaldandi meirihlutasamstarf á milli Eyjalistans og Fyrir Heimaey ganga ágætlega að sögn Njáls Ragnarssonar, oddvita Eyjalistans. Ekkert hefur verið ákveðið um bæjarstjórastólinn í Vestmannaeyjum enda er stefnumótun í forgrunni.

„Við erum búin að ræða vel saman síðustu daga svo það er góður gangur í því,“ segir Njáll.

Spurður um forgangsmál segir hann:

„Það er í raun bara áframhaldandi áhersla á skóla- og fjölskyldumál, byggja upp innviði fyrir alla íbúa, sérstaklega þá barnafólk og innviði í skólunum sem er aðaláherslan og var aðaláherslan síðustu fjögur árin. Það er fullur vilji til þess að halda þeirri uppbyggingu áfram.“

Enginn æsingur

Þannig að það eru engin stór ágreiningsefni?

„Þessar viðræður ganga bara nokkuð vel og enginn er brjálaður út af neinu.“

Það er ekkert verið að bítast um bæjarstjórastólinn?

„Við ákváðum að koma okkur saman um stefnuna áður en við förum út í einhverja svoleiðis sálma. Stefnan er það sem skiptir öllu máli og svo getum við karpað um stöður og embætti þegar við erum búin að koma okkur saman um málefnin.“

Eyjalistinn fékk tvo fulltrúa kjörna, Fyrir Heimaey þrjá og Sjálfstæðisflokkurinn fjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert