Verður væntanlega bæjarstjóri og hættir hjá RL

Almar Guðmundsson tekur væntanlega við bæjarstjórastólnum af Gunnari Einarssyni sem …
Almar Guðmundsson tekur væntanlega við bæjarstjórastólnum af Gunnari Einarssyni sem tilkynnti í lok síðasta árs að hann ætlaði að láta af störfum.

Almar Guðmundsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, tekur væntanlega við bæjarstjórastólnum þar í fyrrihluta júnímánaðar og mun þá jafnframt láta af störfum fyrir Reiknistofu lífeyrissjóða (RL) þar sem hann er nú framkvæmdastjóri. Endurtalning í Garðabæ í gær leiddi í ljós að hreinn meirihluti Sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu heldur velli. 

„Við erum með þennan trausta meirihluta: Sjö manns. Við vinnum út frá því og erum auðvitað þakklát fyrir traustið sem okkur er sýnt í þessu. Svo er framundan fyrsti bæjarstjórnarfundur eftir kosningar þar sem verður skipað í helstu embætti eins og gengur og meðal annars gengið frá ráðningu. Ég mun væntanlega taka við embætti bæjarstjóra í framhaldi af þeim fundi,“ segir Almar í samtali við mbl.is. 

Nýjunga í upplýsingamiðlun að vænta

Eru einhverjar breytingar í farvatninu?

„Í fyrsta lagi held ég að þessi bæjarfulltrúahópur okkar sé frábær blanda af bæði reynslu og nýju fólki og þá nýjum tóni. Þannig hefur það verið hjá okkur í gegnum tíðina. Auðvitað er það þannig að við skynjum að bæjarbúa þyrstir í breyttar áherslur. Það hefur til dæmis með samskipti við bæjarbúa að gera, upplýsingagjöf og upplýsingamiðlun. Við fundum aftur á móti, og það endurspeglast í úrslitunum, mikinn meðbyr með okkar helstu málum. Við höfum sett fram skýr fyrriheit og nú er það okkar að vinda okkur í að vinna eftir þeim lista og skila honum svo til kjósenda eftir kosningar.“

Hver verða fyrstu skrefin?

„Við ætlum að setja sérstaka áherslu á samgöngumál innan bæjarins, stíga og vegtengingar á milli bæjarhluta. Svo auðvitað erum við í mikilli uppbyggingu bæði á leikskólum og skólum og þurfum að klára okkur vel að því. Í þriðja lagi verður meiri áhersla og nýjungar í því hvernig við miðlum upplýsingum til bæjarbúa og tökum samtalið við þá um áherslur og framgang mála.“

mbl.is