Afarkostir Framsóknar hafi neytt þau frá borðinu

Valgarður Lyngdal Jónsson, oddviti Samfylkingarinnar.
Valgarður Lyngdal Jónsson, oddviti Samfylkingarinnar.

Oddviti Samfylkingarinnar á Akranesi segir það ekki rétt að flokkur hans hafi farið á bak við Framsóknarflokkinn og ráðist í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn á meðan meirihlutaviðræður Samfylkingar og Framsóknar voru enn í gangi. Framsókn hafi sett fram afarkosti sem hafi neytt Samfylkinguna frá borðinu.

Samfylkingin sleit viðræðum við Framsókn í gær en flokkarnir tveir eru í meirihlutasamstarfi á því kjörtímabili sem nú er að líða undir lok.

Valgarður Lyngdal Jónsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir að ekki sé búið að fastbinda formlegar meirihlutaviðræður við Sjálfstæðisflokk.

„Við erum búin að hitta Sjálfstæðisflokkinn einu sinni eftir að það slitnaði upp úr hjá okkur og Framsókn í gær,“ segir Valgarður í samtali við mbl.is. Fregna af því hvort flokkarnir tveir ráðist í formlegar meirihlutaviðræður er að vænta síðar í dag.

Hafi ekki rætt meirihlutamyndun við Sjálfstæðisflokkinn

Ragn­ar Bald­vin Sæ­munds­son, odd­viti Fram­sókn­ar á Akra­nesi, sagði í samtali við mbl.is í morgun að Samfylkingin hefði verið í viðræðum við Sjálfstæðisflokk á sama tíma og Framsókn, þrátt fyrir að hafa handsalað við Framsókn heiðursmannasamkomulag um að ætla ekki að ræða við aðra flokka.

„Það er bara ekki rétt hjá honum. Við höfum alveg talað saman en við vorum ekki í viðræðum við Sjálfstæðisflokk um meirihlutamyndun eða neitt slíkt eftir að við vorum búin að samþykkja að fara að tala við Framsókn,“ segir Valgarður um það.  

Var þetta þá óformlegt spjall við Sjálfstæðisflokkinn?

„Ég hef bara spjallað við oddvita Sjálfstæðisflokksins en ekkert varðandi meirihlutamyndun. Í því spjalli lá alveg fyrir að við og Framsókn værum í formlegum meirihlutaviðræðum. Það hafði ekkert með það að gera.“

Hvað hafði það þá með að gera?

„Bara bæjarmálefnin og hvaða mál Sjálfstæðisflokkurinn myndi vilja leggja áherslu á úr minnihluta.“

Gátu ekki haldið áfram í samstarfinu

Valgarður segir að Ragnar hafi verið meðvitaður um að Valgarður hafi ætlað að hitta oddvita Sjálfstæðisflokksins.

„Að það séu einhver svik í því finnst mér skrýtin útgáfa af sögunni,“ segir Valgarður.

„Það sem gerist frá okkar sjónarhóli er að Framsóknarflokkurinn setti okkur strax afarkosti í viðræðunum sem urðu til þess að við gátum ekki haldið áfram í þessu samstarfi.“

Halda áfram að tala við Sjálfstæðisflokkinn

All­ir flokk­arn­ir þrír fengu þrjá full­trúa inn í bæj­ar­stjórn í kosn­ing­un­um en Fram­sókn bætti við sig full­trúa frá kosn­ing­un­um árið 2018. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn missti aft­ur á móti einn full­trúa en fékk mest fylgi og Sam­fylk­ing­in stóð í stað á milli kosn­inga.

„Að okkar mati var okkur núna með þrjá bæjarfulltrúa boðinn lakari kostur en Framsókn var boðið með tvo bæjarfulltrúa fyrir fjórum árum. Við Ragnar vorum ósammála um að það væri lakari kostur en hann var það að okkar mati. Þessir afarkostir neyddu okkur frá borðinu,“ segir Valgarður. „Við hefðum viljað fá jafna skiptingu miðað við að báðir flokkar eru með þrjá bæjarfulltrúa.“

Hvernig sjáið þið framhaldið fyrir ykkur?

„Við ætlum að halda áfram að tala við Sjálfstæðisflokkinn og það kemur væntanlega í ljós seinnipartinn í dag hvort formlegar meirihlutaviðræður verði haldnar.“

Á síðustu ára­tug­um hef­ur oft­ast verið ráðinn bæj­ar­stjóri á Akra­nesi. Aðspurður segir Valgarður að Samfylking vilji sjá Sævar Frey Þráinsson, núverandi bæjarstjóra, sinna því starfi áfram. Afstaða Framsóknar er hin sama, að sögn oddvita Framsóknar á Akranesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert