Íris heldur áfram sem bæjarstjóri

Frá undirritun samningsins sem fram fór um klukkan ellefu í …
Frá undirritun samningsins sem fram fór um klukkan ellefu í morgun. (f.v.) Helga Jóhanna Harðardóttir (E), Njáll Ragnarsson (E), Íris Róbertsdóttir (H), Páll Magnússon (H) og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (H).

Eyjalistinn og Fyrir Heimaey hafa undirritað samkomulag um meirihlutasamstarf í Vestmannaeyjum. Flokkarnir tveir áttu einnig í meirihlutasamstarfi fyrir kosningar. Íris Róbertsdóttir heldur áfram sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Páll Magnússon, oddviti Fyrir Heimaey, verður forseti bæjarstjórnar og Njáll Ragnarsson, oddviti Eyjalistans, formaður bæjarráðs.

Fyrir Heimaey fékk kjörna þrjá fulltrúa í bæjarstjórn í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum og Eyjalistinn tvo. Sjálfstæðisflokkurinn verður í minnihluta í Eyjum með fjóra fulltrúa. 

Heimgreiðslur og þrýsta á ríkisstyrktar flugferðir

Í málefnasamningi flokkanna segir að þeir muni halda áfram fjárfestingu í innviðum samfélagsins í Heimaey. Ætla þeir að halda skóla- og fræðslumálum áfram í forgangi, t.a.m. með því að efla þjónustu í leik- og grunnskólum. Þá verða fyrstu skref í gjaldfrjálsum leikskóla tekin í haust fyrir börn í Víkinni. Sömuleiðis verða teknar upp heimgreiðslu vegna 12 til 16 mánaða barna sem ekki eru á leikskóla.

Þá ætla flokkarnir að byggja þjónustuíbúðir fyrir eldra fólk sem og íbúðir fyrir 60 ára og eldri í samstarfi við einkaaðila. 

Meirihlutinn í Vestmannaeyjum sér fyrir sér að þrýsta á ríkið um að staðið verði við loforð um bætta Landeyjahöfn sem þjónar hlutverki sínu allan ársins hring, flug milli lands og Eyja verði ríkisstyrkt o.s.frv. 

Málefnasamninginnn má finna í heild sinni hér í viðhengi.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is