Oddvitar stærstu flokka hafa ekki tekið símann

Hildur Björnsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Einar Þorsteinsson og Dóra Björt …
Hildur Björnsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Einar Þorsteinsson og Dóra Björt Guðjónsdóttir hafa ekki tekið upp sín tól þegar blaðamenn mbl.is hafa leitað eftir því. Samsett mynd/Eggert

Mbl.is hefur ítrekað reynt að ná í oddvita stærstu fjögurra flokkanna í Reykjavíkurborg í dag og í gær vegna gangs meirihlutaviðræðna. Oddvitarnir hafa ekki tekið upp sín tól. 

Er þá átt við Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, Dag B. Eggertsson, oddvita Samfylkingarinnar, Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknarflokksins, og Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk kjörna sex fulltrúa í borgarstjórn, Samfylkingin fimm, Framsókn fjóra og Píratar þrjá. Sósíalistar fengu kjörna tvo fulltrúa en Flokkur fólksins, Vinstri græn og Viðreisn fengu einn fulltrúa á hvern flokk. 

Einar hefur gefið það út að hann hafi rætt við oddvita allra flokka. Þá hafa Samfylking, Píratar og Viðreisn sagst ætla að fylgjast að í viðræðunum. Píratar, Samfylking og Sósíalistar hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þá hafa Sósíalistar jafnframt útilokað samstarf við Viðreisn.

Sanna við símann og vonar það besta

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista í Reykjavík, gerði sér lítið fyrir og tók upp tólið þegar blaðamaður sló á þráðinn til hennar. Hún sagði samt sem áður lítið að frétta af meirihlutaviðræðum hvað Sósíalista snertir.

„Ég er við símann og held áfram að vera við símann,“ segir Sanna. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, og Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, ræddu um gang mála við mbl.is í gær. Þá leitaði mbl.is einnig upplýsinga hjá Alexöndru Briem, forseta borgarstjórnar, sem var í öðru sæti á lista Pírata, en hún sagði engu nýju frá að segja.

Skömmu eft­ir að niður­stöður kosn­ing­anna lágu fyr­ir gaf Líf Magneu­dótt­ir, odd­viti Vinstri grænna, út að flokk­ur­inn myndi ekki sækj­ast eft­ir viðræðum um meiri­hluta­sam­starf. Í samtali við mbl.is á miðvikudag sagðist Sanna endilega vilja fá Líf með inn í samtalið. Mbl.is hefur ekki náð í Líf í dag og það gekk ekki heldur í gær. 

„Ég hef heyrt í öllum oddvitum. Hún náttúrlega tilkynnir þetta og þetta er hennar ákvörðun en ég held auðvitað áfram að tala við fólk og mín óskastaða hefur komið skýrt fram,“ segir Sanna. 

Hún vonar „það besta“, þ.e. að mynduð verði borgarstjórn sem fari í öfluga húsnæðisuppbyggingu og „mæti öllum grunnþörfum fólks.“

Heldurðu að það sé hægt að mynda slíka stjórn án ykkar?

„Ég vona að hvað sem gerist, sjáum við það besta fyrir borgarbúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert