Taka ekki við stjórn fyrr en kæran er afgreidd

Það gætu liðið nokkrar vikur þar til ný bæjarstjórn tekur …
Það gætu liðið nokkrar vikur þar til ný bæjarstjórn tekur við í Garðabæ, verði ekkert fundið að kjörseðlinum. Miðflokkurinn hefur kært kosningarnar til úrskurðarnefndar kosningamála. mbl.is

Nýkjörin bæjarstjórn Sjálfstæðisflokks í Garðabæ mun ekki taka við stjórnarkeflinu fyrr en kæra Miðflokksins í Garðabæ hefur verið afgreidd. Úrskurðarnefnd kosningamála fær fjórar vikur til úrlausnar málsins en sex vikur ef málið telst mjög umfangsmikið.

Þetta segir Soffía Eydís Björgvinsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Garðabæ. Yfirkjörstjórn barst tilkynning um kæruna í gær frá úrskurðarnefnd kosningamála.

„Miðflokkurinn telur að útlit og form kjörseðilsins valdi ólögmæti. Við munum skila þeim gögnum sem úrskurðarnefnd kosningamála hefur óskað eftir,“ segir Soffía.

Telur flokkurinn að dæmi séu um að kjósendur hafi ekki áttað sig á veru M-listans á kjörseðli vegna þess hvernig seðillinn er brotinn.

Reglurnar séu skýrar en nefndin á lokaorðið

„Það gilda sérstakar reglur sem gilda um það hvernig kjörseðill á að líta út,“ segir Soffía og þar sé mælt fyrir um þykkt, útlit og fleira.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kjörseðill er tvíbrotinn, ég held þetta hafi verið eins annars staðar þar sem 5 listar eru í framboði,“ segir hún.

Lögmætið verði að koma í ljós með úrskurði nefndarinnar.

Úrskurðarnefnd kosningamála er tilkomin með nýjum kosningalögum en þar sitja þrír nefndarmenn sem dómsmálaráðherra skipar. Tekur nefndin fyrir kærumál í kosningum sem svipar til þessa máls.

„Ný bæjarstjórn tekur ekki við fyrr en þetta mál er afgreitt,“ segir Soffía í lokin.

Miðflokkurinn gerir alvarlegar athugasemdir við kjörseðilinn þar sem listinn er …
Miðflokkurinn gerir alvarlegar athugasemdir við kjörseðilinn þar sem listinn er lengst til hægri, og brotinn inn í seðilinn áður en hann er brotinn til helminga. Soffía segir að reglurnar séu skýrar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert