„Það var miklu meira en bara eitthvað eitt“

mbl.is

„Það var miklu meira en bara eitthvað eitt,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ um þau málefni sem meirihlutasamstarf við Vini Mosfellsbæjar strandaði á. Meirihlutasamstarfi í bæjarfélaginu var slitið í dag.

„Það var ekki nógu góður samhljómur okkar á milli. Við ákváðum að fara upp með þessa fjóra flokka og langaði til þess að það myndi ganga upp en svo sáum við að það var ekki alveg að ganga. Við ákváðum þá að halda áfram með Samfylkingunni og Viðreisn og að sleppa þeim [Vinum Mosfellsbæjar],“ segir Halla Karen í samtali við mbl.is.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ.
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ. mbl.is

Ekki allt í klessu

Halla Karen vildi ekki tjá sig um sérstök málefni sem viðræðurnar hafi strandað á.

„Nei það var ekki eitthvað eitt. Það var miklu meira en bara eitthvað eitt, en ég get bara ekki tjáð mig um það. Margir halda að nú sé allt í klessu en það er það ekki. Viðræður gengu mjög vel í dag,“ segir Halla Karen.

Hún heldur að viðræðurnar nái að komast langt á morgun en hún fundaði í dag ásamt Viðreisn og Samfylkingu.

mbl.is