Viðreisn lokar á samstarf við Sjálfstæðisflokkinn

Þórdís Lóa og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís Lóa og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þór­dís Lóa Þór­halls­dótt­ir, odd­viti Viðreisn­ar, segir að flokkurinn skoði ekki aðra möguleika en að vera í bandalagi með Pírötum og Samfylkingunni. Hún er því þar með að loka á viðræður við Sjálfstæðisflokkinn.

Þetta kemur fram í færslu Þórdísar á Facebook en hún sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að lítið væri að frétta af hennar vígsstöðum er kemur að viðræðum um meirihluta í Reykjavík. 

„Eins og þekkt er fórum við í Viðreisn í bandalag með Pírötum og Samfylkingu fljótlega eftir kosningar, hvað varðar meirihlutaviðræður. Í því bandalagi erum við af heilum hug. Það er alveg skýrt og við leitum ekki annað,“ segir í færslu Þórdísar. 

Vill hefja formlegar viðræður með Framsókn

Hún segir þetta bandalag vera augljós kostur þegar skoðaðar eru málefnaáherslur Viðreisnar í kosningabaráttunni. Sérstaklega er varðar skipulags-, samgöngu- og loftslagsmál.

„Þetta verða helstu og mikilvægustu viðfangsefni næstu fjögurra ára og mikilvægt að vanda þar til verka.“

Þórdís segir að Viðreisn vilji því láta á bandalagið reyna með því að hefja formlegar meirihlutaviðræður með Framsóknarflokknum.

„ Með þessum fjórum flokkum næðist starfhæfur og öflugur meirihluti að okkar mati.“

mbl.is