Sjálfstæðismenn biðla til Framsóknar

Einar Þorsteinsson og Hildur Björnsdóttir.
Einar Þorsteinsson og Hildur Björnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú reynir á hvort Framsóknarflokkurinn hafi hugrekki til að svara ákalli kjósenda eftir breyttum stjórnmálum en margir möguleikar eru á borðinu og því ekki þörf á að undirgangast þvinganir meirihlutans, að sögn Hildar Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Niðurstöður nýafstaðinna borgarstjórnarkosninga hafi verið skýrar, meirihlutinn féll og þeir sem stóðu utan hans fengu tæplega 60% atkvæða.

„Kjósendur kölluðu eftir breytingum,“ segir í færslu Hildar á Facebook, þar sem hún gagnrýnir kosningabandalag Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar, sem hún kallar „þrjóskubandalag“ en allt eru þetta flokkar sem voru í meirihluta á liðnu kjörtímabili, sem féll um síðustu helgi.

Bandalagið þverskallast við að láta af völdum sem kjósendur vilja ekki fela þeim lengur - með útilokunum og þvingunum. Það getur tæplega talist upptaktur að farsælu samstarfi fyrir Framsóknarflokkinn.

Hún segir hina flokkana í borgarstjórn þó hafa val um að svara ákalli kjósenda eftir málefnalegum stjórnmálum og aukinni samvinnu um mikilvæg framfararmál og að ekki sé nauðsynlegt að undirgangast þvinganir fyrrverandi meirihlutaflokkanna.

Sjálfstæðisflokkurinn sé reiðubúinn til samtals við alla flokka um verkefni næsta kjörtímabils. 

„Við gengum óbundin til kosninga, boðuðum breytingar og vorum heiðarleg gagnvart okkar kjósendum.

Nú reynir á Framsóknarflokkinn - og auðvitað alla flokka innan borgarstjórnar - að hafa hugrekkið til að svara ákalli kjósenda eftir breyttum stjórnmálum.“
mbl.is

Bloggað um fréttina