Fróðlegt að sjá hvort breytingar verði

Oddvitar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Oddvitar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, kveðst afar róleg yfir tíðindunum sem bárust í morgun um að formlegar viðræður milli Framsóknar, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar, um myndun nýs meirihluta, væru að hefjast. Fróðlegt verði þó að sjá hvernig takist að kalla fram þær breytingar sem að niðurstöður kosninganna kölluðu á. 

Hún segir ákveðnar vísbendingar hafa verið á lofti um helgina að svona myndi fara en Sjálfstæðismenn muni fylgjast með gangi viðræðna. Þangað til „bíða þeir bara rólegir.“

„Við erum stór og umbótasinnaður flokkur og erum reiðubúin að starfa með öllum að góðum málum. Þetta var hins vegar niðurstaðan og það verður fróðlegt að sjá hvernig þessum flokkum mun takast að verða sú ásýnd breytinga sem niðurstöður kosninga kölluðu á,“ segir Hildur í samtali við mbl.is.

Hatrömm pólitík í borgarstjórn

Sjálfstæðismenn fengu mesta fylgið í borgarstjórnarkosningum sem fóru fram fyrir 10 dögum. Þrátt fyrir að ná sex fulltrúum í borgarstjórn hefur þeim þó ekki tekist að fá sæti við borðið í formlegum viðræðum um myndun nýs meirihluta enn eitt kjörtímabilið.

Spurð hvort að þessi niðurstaða kalli á einhvers konar breytingar, segir Hildur Sjálfstæðisflokkinn vera með sterkasta lýðræðislega umboðið. Flokknum varð þó ekki ágengt í ljósi þess hvernig aðrir flokkar kusu að haga sínum málum.

„Við erum auðvitað stærsti flokkurinn í borginni. Við erum með sterkasta lýðræðislega umboðið og fjórði hver kjósandi greiddi okkur atkvæði sitt og fyrir það erum við mjög þakklát.

Hins vegar hefur pólitíkin verið fremur hatrömm innan veggja borgarstjórnar og margir flokkar ástunda einhvers konar útilokunarpólitík og það er eitthvað sem ég tel að niðurstöður kosninga að myndi breytast. Fólk var að kalla á aukna sátt í stjórnmálum og að fólk myndi tala saman og við vildum hlýða því kalli.“

Aðhaldshlutverkið mikilvægt

Fari svo að viðræður gangi vel og flokkarnir myndi formlegan meirihluta mun Sjálfstæðisflokkurinn enn á ný skipa sæti í minnihlutanum. Hildur segir kunnuglega hlutverkið þó ekki síður mikilvægt.

„Þar fer maður í þetta mikilvæga aðhaldshlutverk sem að minnihluta er falið. Þar þarf að vinna að góðum málum og styðja þau, en líka halda líka á lofti okkar sjónarmiðum og baráttumálum. Við munum gera það hvort sem við erum í minnihluta eða meirihluta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina