Tvær vikur í fyrsta borgarstjórnarfund

Frá blaðamannafundinum sem haldinn var í Grósku fyrr í dag.
Frá blaðamannafundinum sem haldinn var í Grósku fyrr í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsti borgarstjórnarfundur nýkjörinna borgarfulltrúa verður haldinn í síðasta lagi þann 7. júní en umboð fráfarandi borgarstjórnar rennur út þann 1. júní.

Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík, á blaðamannafundi í Grósku sem var haldinn fyrr í dag. 

Þar komu saman oddvitar Framsóknarflokksins, Viðreisnar, Pírata og Samfylkingarinnar, en Framsókn boðaði í morgun hina þrjá flokkanna til formlegrar viðræðna um myndun meirihluta í borgarstjórn.

Á fundinum voru oddvitarnir spurðir hvort að tímarammi hefði verið ákveðinn fyrir viðræðurnar um myndun meirihlutans. Dagur sagði þá tvær dagsetningar sem skipta máli. Annars vegar þegar umboð fráfarandi borgarstjórnar rennur út og hins vegar þegar fyrsti borgarstjórnarfundur nýs kjörtímabils fer fram.

Horft yrði til þeirra dagsetninga en flokkarnir ætli þó ekki að setja sér óþarflega skamman tíma. Þá sagði hann að viðræðu- og verkáætlun yrði sett á morgun.

mbl.is