Ásdís verður bæjarstjóri í Kópavogi

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í Kópavogi og fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, verður bæjarstjóri í Kópavogi allt næsta kjörtímabil samkvæmt nýjum málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í bænum sem kynntur verður á morgun. 

Þetta herma öruggar heimildir mbl.is. 

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt velli í sveitarstjórnarkosningunum fyrr í mánuðinum en Framsókn jók vægi sitt á meðan Sjálfstæðisflokkur missti mann í bæjarstjórn.

Báðir flokkar voru sammála um að áframhaldandi samstarf væri fyrsti valkostur en margir veltu fyrir sér kröfum Framsóknar þar sem samningsstaða þeirra hafði vænkast verulega og kostir Sjálfstæðisflokksins færri. 

Nú liggur fyrir að Ásdís verður bæjarstjóri allt kjörtímabilið. Embætti formanns bæjarráðs mun falla Framsókn í skaut og embætti forseta bæjarstjórnar verður skipt á milli flokkana svo að hvor flokkur haldi á því í tvö ár á kjörtímabilinu. 

mbl.is