Áttræður í bæjarstjórn

Brynjólfur Ingvarsson.
Brynjólfur Ingvarsson. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég mun standa með öllum góðum tillögum sem fram verða bornar í bæjarmálum, rétt eins og ég mun alltaf hafna óráðsíu og öfgum. Til þess að tryggja velferð sem best þurfa félagslegar lausnir alltaf að vera ráðandi, enda þótt einkamarkaðurinn geti vissulega og á stundum leyst ákveðin viðfangsefni,“ segir Brynjólfur Ingvarsson, sem á dögunum var kjörinn fulltrúi Flokks fólksins í bæjarstjórn Akureyrar. Hann er áttræður að aldri og því elsti kjörni sveitarstjórnarmaður landsins, eftir því sem næst verður komist. Brynjólfi finnst aldurinn þó engin fyrirstaða, enda sé heilsan góð.

Handleggur gripinn

Í bæjarstjórnarkosningunum fékk Flokkur fólksins 12,1% greiddra atkvæða á Akureyri. Góðan árangur þakkar Brynjólfur því að fólkið sem að framboðinu stóð náði vel saman og málefnin skýr. Í umræðum fyrir kosningar lét Brynjólfur meðal annars málefni eldri borgara til sín taka.

„Ég veit að margt af eldra fólkinu hér í bænum telur sig afskipt og er vonsvikið yfir því að fá ekki þá þjónustu frá bænum sem því ber, svo sem í húsnæðismálum. Ég svaraði því kalli um að fara í framboð; rétti fram fingurinn og þá var allur handleggurinn gripinn. Framvindan öll var mjög hröð,“ segir bæjarfulltrúinn.

Brynjólfur er Norðlendingur í húð og hár – ekkjumaður og faðir fimm uppkominna sona. Er geðlæknir og starfaði sem slíkur í áratugi við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, eða fram til 2012. Í starfi og áherslum þar var fagfólk áfram um að þjónusta við sjúklinga væri í tengslum við grasrótina, hið almenna samfélag og þær bjargir sem þar bjóðast.

„Þessi stefna okkar átti ekki upp á pallborðið alls staðar og var faglega umdeild. Við Sigmundur heitinn Sigfússon yfirlæknir héldum hins vegar okkar striki og náðum ágætum árangri,“ segur Brynjólfur. Frá þessu segir hann meðal annars í sögu sinni, Guðfaðir geðveikinnar á Akureyri, sem kom út á síðasta ári.

Sem læknir í samskiptum við marga segist Brynjólfur hafa kynnst vel aðstæðum fjölda fólks – oft bágum – og viti því hvar úrbóta sé þörf.

Öllum bjóðist tækifæri

„Geðlækningar og stjórnmál ganga fyrst og fremst út á samskipti við fólk og eru að því leyti náskyld störf. Hvort tveggja kallar á að þú sért áfram um að hjálpa fólki og finna lausnir sem skapa betra samfélag. Já og eftir hálfa öld sem læknir hér í bæ veit ég veit ég að einangrun, búseta í ófullnægjandi húsnæði, fátækt, vímuefnanotkun og fleira slíkt er veruleiki margra hér á Akureyri. Margir lifa við þær aðstæður að heilsan gefur eftir. Á bak við sölu á fíkniefnum til ungs fólks eru glæpamenn sem lögreglan er alltaf skrefi á eftir. Allt þetta getum við kallað jaðarmenningu og ungur hefði ég sagt að orsök þess alls væri kapítalisminn. Árin og reynslan hafa sagt mér að slík einföldun gengur ekki upp,“ segir Brynjólfur og heldur áfram:

„Samfélag nútímans er flókið en til þess að skapa á hverjum tíma bestu útgáfu þess er lausnin að taka hugmyndir, hverja úr sinni áttinni, og bræða saman í eina stefnu. Með slíkt að leiðarljósi vænti ég góðs samstarfs við öll þau sem ásamt mér hafa nú verið kjörin í bæjarstjórn. Stundum er sagt að norræna módelið svonefnda sé besta samfélagsgerð í heimi, sem vel kann að vera rétt. En svo má taka málin lengra og benda á kosti íslensks bæjarfélags af mátulegri stærð, eins og til dæmis hér á Akureyri, þar sem íbúarnir standa saman að því að skapa samfélag þar sem öllum bjóðast tækifæri og velferðin er tryggð. Auðvitað verður slíkt aldrei gert og tryggt fullkomlega, en allar aðstæður eru fyrir hendi svo gera megi góða hluti.“

Spennandi lærdómur

Gengur, syndir og fer flesta daga á hestbak. Þannig lýsir Brynjólfur Ingvarsson sinni daglegu rútínu – sem hann telur að mörgu leyti útskýra að heilsa sín sé góð. Því sé ekkert annað í stöðunni nú en að setja sig inn í mál og koma þar með tillögur sem bætt geti bæjarbraginn. „Kunnugir segja mér að kjörtímabilið þurfi til þess að komast sæmilega inn í hlutina og skilja hvernig kerfið virkar. Þetta verður því bara spennandi lærdómur – og vonandi tekst mér að koma góðu til leiðar í störfum mínum í bæjarstjórn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »