Rósa verður bæjarstjóri til 2025

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfjarðarbæ, mun halda embætti sínu sem bæjarstjóri til 1. janúar 2025 en þá mun Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarflokksins, taka við starfinu. Þangað til verður hann formaður bæjarráðs. Kristinn Andersen verður forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði út kjörtímabilið.

Náðst hefur samkomulag milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar um áframhaldandi meirihlutasamstarf en unnið er að málefnasamningi flokkanna sem verður kynntur á næstu dögum, að því er fram kemur í sameiginlegri tilkynningu flokkanna.

Þar segir einnig að helstu verkefni nýs meirihluta verði að undirbúa þá miklu íbúafjölgun sem er framundan, stuðla að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og tryggja þjónustu og velferð fyrir alla aldurshópa. 

mbl.is