Klára meirihlutaviðræður með skilvirkum hætti

Einar Þorsteinsson, oddviti og borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Einar Þorsteinsson, oddviti og borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stemmingin er bara ágæt, við bara sitjum við og erum að fara í gegnum málefnin,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti og borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík, spurður um hvernig meirihlutaviðræður milli Framsóknar, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar ganga. 

Einar segir að flokkarnir munu taka þann tíma sem þarf í viðræðurnar. „Það er ekkert hægt segja til um tímaramma í þessu nema það að það er náttúrlega bara gott að klára þetta með sem skilvirkustum hætti. En hér eru fjórir flokkar að semja um meirihlutasamstarf til næstu fjögurra ára og þá þarf að gefa sér þann tíma sem þarf, til að þess að raða sér niður á sameiginlega niðurstöðu,“ segir hann.

Á ábyrgð Framsóknar

Hann segir að það sé á ábyrgð Framsóknar að í Reykjavík sé myndaður meirihluti eftir að ýmsir flokkar útilokuðu meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Meirihlutaviðræður vegna meirihlutasamstarfs í Reykjavík standa nú yfir milli Framsóknarflokksins, …
Meirihlutaviðræður vegna meirihlutasamstarfs í Reykjavík standa nú yfir milli Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var sá möguleiki sem var á borðinu. Flokkar hafa útilokað Sjálfstæðisflokk frá samstarfi og þá er það á ábyrgð Framsóknar að sjá til þess að hér sé myndaður meirihluti sem byggist á sameiginlegum áherslum, sameiginlegri sýn og trausti á milli fólks. Nú erum við á þeirri vegferð að reyna að ná saman um þessi mál sem talað var um í kosningabaráttunni, meðal annars öfluga uppbyggingu í húsnæðismálum, innviðamálum sem tengjast samgöngum og ýmsu öðru. Það er bara vinnan og verkefnið núna og við sjáum hvert það leiðir,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert