Almar nýr bæjarstjóri Garðabæjar

Almar Guðmundsson nýr bæjarstjóri Garðabæjar.
Almar Guðmundsson nýr bæjarstjóri Garðabæjar. Ljósmynd/Aðsend

Almar Guðmundsson hefur verið ráðinn bæjarstjóri Garðabæjar og tekur hann við af Gunnari Einarssyni, sem lætur af störfum eftir 17 ára starf.

Ráðning Almars, sem er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, var samþykkt á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í dag, að því er fram kemur í tilkynningu.

Þar var jafnframt ákveðið að Sigríður Hulda Jónsdóttir myndi gegna embætti forseta bæjarstjórnar og Björg Fenger yrði formaður bæjarráðs. Þær eru báðar bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem hlaut hreinan meirihluta í síðustu bæjarstjórnarkosningum.

Almar er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá London Business School. Hann hefur reynslu af störfum í bæjarstjórn en hann hefur verið bæjarfulltrúi í Garðabæ frá árinu 2014.

Undanfarið ár hefur Almar starfað hjá Reiknistofu lífeyrissjóða þar sem hann leiddi vinnu við breytingar á rekstri hugbúnaðarkerfis í eigu lífeyrissjóða. Þá starfaði hann einnig hjá Samtökum iðnaðarins, Krít fjármögnunarlausnum og síðar hjá Kviku. Auk þess hefur hann reynslu af stjórnunarstörfum hjá Íslandsbanka og Glitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert