Meirihlutasamningur BSPC í höfn

Einar Þorsteinsson.
Einar Þorsteinsson. mbl.is/Hákon

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík, hefur boðað kjörna borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa annars vegar og borgarmálaráð Framsóknar hins vegar á fund á morgun til að kynna samkomulag Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar um meirihlutasamstarf í borgarstjórn. 

Þetta herma öruggar heimildir mbl.is. Þá hefur flokksráð Samfylkingarinnar verið boðað á fund annað kvöld til að samþykkja málefnasamning. 

Því má gera fastlega ráð fyrir að samningar flokkanna fjögurra sé í höfn af hálfu þeirra sem fóru með samningsumboð fyrir sína flokka en flokksstofnanir þurfa að samþykkja samstarfið eftir atvikum. 

Framsókn boðaði meirihlutabandalag Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar til viðræðna mánudaginn 24. maí, tíu dögum eftir að gengið var til kosninga í sveitarstjórnum landsins. Oddvitar og þeir sem skipuðu annað sæti listanna hafa setið við samninga síðan þá og tók ný borgarstjórn við umboði í byrjun vikunnar.

mbl.is