Ætla að ráðast í húsnæðisátak

Oddvitar Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar kynntu málefnasamning nýs merihluta …
Oddvitar Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar kynntu málefnasamning nýs merihluta í dag. mbl.is/Óttar

Meirihlutasáttmáli Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar í Reykjavík var kynntur á sameiginlegum blaðamannafundi í Elliðaárdalnum í dag.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, og Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, munu deila borgarstjórastólnum á kjörtímabilinu líkt og greint var frá á mbl.is fyrr í dag. 

Þá mun Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, fara fyrir umhverfis- og skipulagsmálum og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, verða forseti borgarstjórnar.

Úthluta lóðum á fimm svæðum

Í sáttmálanum segir að til standi að úthluta lóðum til byggingar í Úlfarsárdal, Kjalarnesi, Gufunesi og á Ártúnshöfða og Hlíðarenda.

Þá verður efnt til samkeppni um skipulags Keldnalands og Keldnaholts og framkvæmdir hafnar á Hlemmtorgi.

Húsnæðissáttmáli á milli ríkis og sveitarfélaga er einnig á dagskránni og þá verður umhverfismat vegna Sundabrautar gert á kjörtímabilinu.

Ókeypis í sund og strætó

Frístundastyrkur verður hækkaður upp í 75 þúsund krónur 1. janúar og ókeypis verður fyrir börn á grunnskólaaldri í sund og í strætó. Strætó mun aftur fara að ganga á nóttunni og tilraun með miðnæturopnun í sundi verður hafin, einu sinni í viku.

Áætlað er að hefja átak í betri svefni barna með möguleika um breytingar á upphafi skóladags. Þá verður sett á fót skaðaminnkandi úrræði fyrir unga karlmenn.

Viðhaldsátak í húsnæði borgarinnar

Viðhaldsátak í leik- grunn- og frístundahúsnæði borgarinnar verður sett í forgang og verður þeim verkefnum flýtt eins og kostur er. Framkvæmdarnefnd um þjóðarhöll og aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal verður stofnuð í samstarfi við ríkið.

Auglýst verður eftir samstarfsaðilum til að þróa hugmyndir um miðstöð jaðaríþrótta í Toppstöðinni í Elliðaárdal. Þá verður efnt til samkeppni um dans- og fimleikahús í Efra Breiðholti.

Nýi meirihlutinn vill ná samstöðu um að stofna áfangastaða- og markaðsstofu ásamt hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

Samtal verður við alla borgarfulltrúa um bættan starfsanda og fjölskylduvæna borgarstjórn.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert