Unnur Valborg ráðin sveitarstjóri í Húnaþingi vestra

Unnur Valborg Hilmarsdóttir var ráðin í starf sveitarstjóra Húnaþings vestra.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir var ráðin í starf sveitarstjóra Húnaþings vestra. Ljósmynd/Aðsend

Unnur Valborg Hilmarsdóttir hefur verið ráðin í starf sveitarstjóra Húnaþings vestra til næstu fjögurra ára.

Unnur hefur um árabil starfað við ráðgjöf og námskeiðahald í sínu eigin fyrirtæki og hjá Dale Carnegie á Íslandi. 

Hún hefur undanfarin fjögur ár starfað sem framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Þar áður var hún oddviti sveitarstjórnar í Húnaþingi vestra. Að auki við starfsreynslu er Unnur með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands (MPA), B.Ed. próf frá Kennaraháskóla Íslands, viðbótar diplómu í rekstri og stjórnun frá EHÍ. 

Unnur segist vera þakklát og stolt yfir því að fá þetta tækifæri. Hún segist hlakka til samstarfsins og til þess að leggja sitt að mörkum til að efla sveitarfélagið.

Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti sveitarstjórnarinnar, segir að þessi reynsla og þekking á stjórnkerfinu eigi eftir að nýtast mjög vel í sveitarstjórnarhlutverkinu. „Hún þekkir samfélagið hér vel og hefur metnað og kraft til að stuðla að enn frekari eflingu þess. Við í sveitarstjórn berum miklar væntingar til samstarfsins,“ segir Þorleifur.

Unnur tekur við starfinu í september.

mbl.is