Fékk ekki að kjósa á kjörstað

Helgi Þorleifur Þórhallson fékk ekki að kjósa á kjörstað í …
Helgi Þorleifur Þórhallson fékk ekki að kjósa á kjörstað í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Helgi Þorleifur Þórhallsson, nemi í fatahönnun við Listaháskóla Íslands, lenti í leiðinlegu atviki á kjörstað á morgun. Hann mætti á sinn kjörstað, félagsheimilið Breiðumýri í Þingeyjarsveit, til að kjósa til forseta Íslands. 

Þegar Helgi mætti á kjörstað var honum tilkynnt að hann gæti ekki kosið á þessum kjörstað.

Helgi er búsettur í Reykjavík á veturna þar sem hann stundar nám við Listaháskóla Íslands en flytur aftur í Mývatnssveit á sumrin til foreldra sinna. Helgi tilkynnti breytingu á lögheimili sínu til Þjóðskrá 10. maí og trúði því að þá gæti hann kosið í félagsheimilinu Breiðumýri. 

Svo var ekki, en þegar hann mætti á kjörstað var honum tilkynnt að hann væri ekki á kjörskrá fyrir norðan, heldur þyrfti hann að kjósa í Reykjavík þar sem hann var áður með lögheimili.

Þjóðskrá miðar við að kjósendur séu á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili þann 24. apríl 2024, að því er segir á vef Þjóðskrár.

Kjörstjórn vissi ekki hvernig skyldi bregðast við

Helgi segir í samtali við mbl.is að honum hafi fundist þetta atvik hafa komið kjörstjórn í opna skjöldu og þau voru ekki viss hvernig ætti að bregðast við. 

„Ég talaði við forseta kjörstjórnarinnar og hann hringir í allar stofnanir, Þjóðskrá og allt, en niðurstaðan er að ég hefði þurft að breyta lögheimilinu mínu fyrr til að vera á kjörskrá fyrir norðan.“

Helgi segir þetta koma verst við fólk sem býr í Reykjavík á veturna, en flytji aftur heim á sumrin. 

„Ég er örugglega ekki sá eini sem hefur, eða mun lenda í þessu.“

Hefði þurft að senda atkvæðið með flugi

„Ég get ekki kosið í dag, það sem ég hefði getað gert er að kjósa utankjörfundar. Þá hefði ég þurft að keyra til Akureyrar eða Húsavíkur, sem er klukkutíma keyrsla frá Mývatnssveit, síðan hefði ég þurft að borga fyrir flug til að senda atkvæðið mitt suður og redda einhverjum fyrir sunnan til að taka á móti atkvæðinu mínu þar og skila á minn kjörstað, en nú er ég mættur í vinnuna og verð þar í allan dag.“

Helgi segist afar ósáttur með þessa stöðu og kallar eftir því að það verði gert skýrara hvenær orðið er of seint að breyta lögheimili sínu fyrir kosningar.

„Mér líður eins og atkvæði mitt hafi verið tekið af mér,“ segir Helgi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert