Ásmundur Einar Daðason, oddviti Framsóknarflokks í Reykjavíkurkjördæmi norður, segist hafa einsett sér að bæta aðbúnað barna í íslensku samfélagi. Segir hann að tala þurfi af meiri virðingu um þá sem vinna með börnum.
„Ég er orðinn mjög leiður á því að við séum með stéttir sem vinna með okkar mikilvægustu borgurum og við ýmist tölum það niður eða við gerum kröfu á þau og erum ekki tilbúin að umbuna þeim sem eru að vinna með framtíðina með þeim hætti.“
Segir hann að eftirsóknarverðustu störfin í íslensku samfélagi eigi að snúa að því að vinna með börnum og þannig myndum við byggja upp framtíðina.
Hvað kröfur kennara varðar um 40% launahækkun segist hann taka undir mikilvægi þess að mæta kennurum og öðru fólki sem vinni með börnum. Bæta þurfi kjör þeirra og aðbúnað en tekur fram að það geti ekki gerst á einni nóttu.
„Fyrst og síðast verðum við að fara að viðurkenna að mikilvægustu störfin í samfélaginu eru í höndum þeirra sem vinna með börnunum.“