Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin eru hnífjöfn samkvæmt nýjustu kosningaspá Metils, og mælast báðir flokkar með fylgi að miðgildi 18%. Er um nokkrar sviptingar að ræða frá síðustu spá Metils, en þar var Viðreisn með flest þingsæti.
Í rökstuðningi Metils segir að tvær nýjar fylgiskannanir frá Maskínu og Prósent hafi nokkur áhrif á líkanið. Þá hafi það einnig áhrif að færri dagar séu til kosninga, en þá minnkar óvissan í líkaninu og vægi kannana eykst á kostnað sögulegra gagna.
Samkvæmt spánni mælist Viðreisn með 16% fylgi að miðgildi, en flokkurinn var með 17% miðgildi í síðustu spá Metils. Þá sækir Flokkur fólksins í sig veðrið samkvæmt spánni.
Í rökstuðningi Metils er einnig vikið að 5% þröskuldinum og þar kemur í ljós að bæði Píratar og Sósíalistar hafa aukið líkur sínar samkvæmt spálíkaninu á því að ná yfir þröskuldinn. Eru því nokkrar líkur á því að annar eða báðir flokkar nái mönnum inn á þing.
Líklegasta útkoman samkvæmt nýjustu spá er að sjö flokkar nái inn þingmönnum, en á því eru um það bil helmingslíkur samkvæmt tölfræðilíkani Metils.
Metill hyggst birta lokaspá sína annað kvöld eftir að síðustu kannanir hafa birst.