Fréttaskýring: Áherslan lögð á björgun

Samstarf Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í ríkisstjórn, sem varin verður falli af Framsóknarflokknum, mun öðru fremur byggjast á því að koma í framkvæmd tímasettri áætlun um aðgerðir til að hjálpa heimilum og fyrirtækjum að takast á við erfiðleika. Í viðræðum flokkanna hafa þessar aðgerðir meðal annars verið kallaðar „björgunaraðgerðir“.

Lögð verður áhersla á að flýta því eins og kostur er að fá ríkisbankana, Nýja Glitni, Nýja Kaupþing og NBI, til þess að „virka almennilega“ eins og viðmælandi Morgunblaðsins komst að orði. Samvinna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verður áfram fyrir hendi en vilji er til þess hjá Vinstri grænum að ræða skilyrði sjóðsins og hvernig þau samræmast stöðunni í landinu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins vilja flokkarnir að ferlið verði unnið í samráði við „færustu sérfræðinga“ sem hafa góð tengsl við alþjóðasamfélagið. Telja flokkarnir brýnt að hafa umgjörð um efnahagsáætlunina trúverðuga og betur til þess fallna en verið hefur til þessa að auka traust á alþjóðavettvangi. Flokkarnir telja Gylfa Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, geta styrkt efnahagsaðgerðir og samræmt aðgerðir betur en tekist hefur til þessa. Hann mun gegna embætti viðskiptaráðherra.

Búsetuúrræði fyrir fólk í vanda

Flokkarnir hafa lagt áherslu á að skýr úrræði verði ljós, frá fyrsta starfsdegi stjórnarinnar, fyrir fólk sem ekki getur lengur borgað af húsum sínum. Þau fælust öðru fremur í því að slaka á innheimtukröfum og gera fólki mögulegt að vera í íbúðum og húsum sínum, a.m.k. tímabundið, meðan leyst er úr greiðsluerfiðleikum.

Þá hafa flokkarnir hug á því að láta kanna til hlítar hvort mögulegt verði fyrir fólk að fá séreignarsparnað sinn greiddan út, að minnsta kosti að einhverju leyti, til þess að hjálpa þeim sem eru í „verstu neyðinni“.

Í atvinnumálum hafa flokkarnir rætt um að mögulegt verði að koma á sérstökum aðgerðum til að efla starfsemi fyrir iðnaðarmenn. Meðal annars þannig að endurbótalán verði veitt til viðhalds á byggingum.

Auk þess hafa Vinstri græn lagt á það áherslu í viðræðum flokkanna að strax verði undirbúin vinna fyrir ungt fólk á sumarmánuðum þessa árs. Samkvæmt spám er talið að atvinnuleysi geti náð hámarki á vormánuðum þegar skólum lýkur og nemendur, það er þeir sem eru eldri en sextán ára, koma út á vinnumarkaðinn.

Meðal annars hefur verið rætt milli forsvarsmanna flokkanna að umhverfisvænum störfum, eins og skógrækt, verði haldið gangandi eins og tíðkast hefur víða um land árum saman.

Mikil áhersla verður lögð á að gera breytingar á lögum sem taka til gjaldþrota einstaklinga. Flokkarnir eru sammála um að mikilvægt sé að breyta þeim til þess að fólk sem verður gjaldþrota eigi meiri möguleika á því að byggja upp „nýtt líf“, eins og einn viðmælenda komst að orði.

Í hnotskurn
» Vinstri græn og Samfylkingin hafa lagt áherslu á það, í viðræðum forystumanna sinna flokka, að verkefni sem þarf að leysa séu ópólitísk. Skipuleggja þurfi áætlanir sem raunhæft sé að hrinda strax í framkvæmd.
» Að miklu leyti er byggt á áætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar sem gerð var í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hún var sett upp og skipulögð eftir að bankarnir voru yfirteknir af Fjármálaeftirlitinu á grundvelli neyðarlaga.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Innlent, Kosningar — Fleiri fréttir

Í gær

Mánudaginn 20. september

Sunnudaginn 19. september

Laugardaginn 18. september

Föstudaginn 17. september

Fimmtudaginn 16. september

Miðvikudaginn 15. september

Þriðjudaginn 14. september

Mánudaginn 13. september

Sunnudaginn 12. september