VG vill ESB í þjóðaratkvæði

Vinstri græn samþykktu nú á landsfundi flokksins tillögu um að aðild Íslands að Evrópusambandinu skuli leggja undir þjóðaratkvæði. Samkvæmt kosningaáherslunum telur flokkurinn þó að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Margir fundargestir stigu í pontu til að ræða sambandið og lýstu sig andvíga inngöngu. Umræðan mætti þó alls ekki verða útundan eins og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sagði: 

„Við megum ekki gleyma af hverju við erum í ríkisstjórn. Við erum í ríkisstjórn vegna búsáhaldabyltingarinnar, af því að fólkið krafðist lýðræðis. Við hljótum því ævinlega að styðja tillögur sem efla lýðræðið í landinu, líka tillögur um ESB.“

Meðal annarra kosningaáherslna var samþykkt tillaga um að tiltekinn hluti þjóðarinnar, t.d. 20%, geti með undirskrift sinni átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslu. Einnig voru samþykktar ályktanir um að leggja niður Varnarmálastofnun og að tryggja að jöfn þátttaka kynja verði grundvallarregla.

Lækka vexti og afnema verðtryggingu

Vinstri græn segja grundvallaratriði að lækka vexti og í framhaldinu að afnema verðtryggingu í áföngum. Þá er lagt til að vaxtabætur verði hækkaðar um 25% og sameinaðar húsaleigubótum innan skattkerfisins.

Áhersla skal lögð á atvinnusköpun á forsendum sjálfbærrar þróunar. Fjármunir skuli hins opinbera frekar vera notaðir í að skapa atvinnu en að greiða bætur. Þá skuli tryggja að atvinnusköpun og efnahagsuppbygging miði jafnt að þátttöku kvenna og karla. Í því samhengi benti Halla Gunnarsdóttir á að sérstaklega þyrfti að varast meiriháttar uppsagnir kvenna í láglaunastörfum til að „spara“, til þess eins að búa í kjölfarið til „karlastörf“ með auknum framkvæmdum. Vinstri græn yrðu að standa vörð um störf í velferðakerfinu.

Grænu sjónarmiðin ekki á undanhaldi

Í umræðu um ályktanirnar komu fram nokkrar áhyggjur um að grænu sjónarmið væru ekki nægilega áberandi. Núverandi ástand hefði ekki þá þýðingu að ekki væri pláss fyrir umhverfismálin. Þar sagði Álfheiður Ingadóttir, þingmaður flokksins, að flokkurinn mætti ekki tapa grænu atkvæðunum til Samfylkingarinnar. Auður Lilja Erlingsdóttir sagði jákvætt að ekki væri sér kafli um umhverfisstefnu, því grænu sjónarmiðin ættu að vera innfléttuð í alla málaflokka.

Vinstrihreyfingin grænt framboð mun ennfremur sækjast eftir því að mynda félagshyggjustjórn.

Nánar má lesa um ályktanir landsfundar á vef Vinstri grænna.

mbl.is

Bloggað um fréttina