Kannanir langt frá kjörfylgi

Fylgst með fyrstu tölum í Sjónvarpssal
Fylgst með fyrstu tölum í Sjónvarpssal mbl.is/Kristinn

Niðurstöður úr síðustu skoðanakönnunum sem fjölmiðlar birtu fyrir kosningarmar voru nokkkuð frá kosningaúrslitum. Fylgi VG mældist mun meira í könnunum en kjörfylgi í gær. Að sama skapi mældist fylgi Framsóknarflokks minna í könnunum en raun varð á í kosningunum.

Í síðustu könnun Capacent Gallup sem gerð var dagana 20. til 22. apríl og birt var 23. apríl mældist Framsóknarflokkurinn með 11,9% fylgi. Kjörfylgi flokksins í gær var hins vegar 14,8%. Flokkurinn fékk því 2,9 prósentustigum meira en könnunin sýndi. Í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem birt var á föstudag, mældist fylgi Framsóknarflokksins 11,3% eða 3,5 prósentustigum minna en kjörfylgið.

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 23,6% fylgi í könnun Capacent en fékk 23,7% atkvæða. Þar skeikaði því aðeins 0,1 prósentustigi. Fréttablaðið mældi fylgi Sjálfstæðisflokksins21,9%, 1,8 prósentustigum undir kjörfylginu.

Frjálslyndi flokkurinn mældist hjá Capacent með 1,2% en fékk 2,2%. Munurinn er 1 prósentustig. Fréttablaðið mældi fylgi flokksins 2,6%, 0,4 prósentustigum yfir kjörfylginu.

Borgarahreyfingin mældist með 6,5% í síðustu raðkönnun Capacent en fékk 7,2% atkvæða í kosningunum. Þar skeikaði 0,7 prósentustigum. Borgarahreyfingin mældist með 7,1% hjá Fréttablaðinu, 0,1 prósentustigi undir kjörfylgi.

P-listi Lýðræðishreyfingar mældist hjá Capacent með 0,4% fylgi en fékk 0,6% atkvæða eða 0,2 prósentustigum meira. Fréttablaðið mældi fylgi P-lista 1,2% eða 0,6 prósentustigum meira en raun varð á í kosningunum.

Capacent mældi fylgi Samfylkingarinnar 29,2% en flokkurinn fékk 29,8% atkvæða. Munurinn er 0,6 prósentustig. Fylgið mældist enn meira íkönnun Fréttablaðsins eða 31,8%. Þar skeikaði 2 prósentustigum.

Báðar kannanir mældu mun meira fylgi hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði en raun varð á í kosningum. Capacent mældi fylgi VG 27,2% en flokkurinn fékk 21,7% atkvæða. Þar munar 5,5 prósentustigum. Fréttablaðið mældi fylgi VG 24,1% eða 2,4 prósentustigum yfir kjörfylgi.

mbl.is