Sjálfstæðisflokkur fótbrotinn á báðum fótum

Það er fjarstæða að halda því fram að niðurstaða Alþingiskosninganna sé krafa þjóðarinnar um aðild að Evrópusambandinu. Þetta segir Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og segir það fráleitt í ljósi þess að Vinstrihreyfingin-grænt framboð hafi unnið stærstan sigur en sá flokkur sé eindregnasti andstæðingur Evrópusambandsins.

Kjartan segir að þjóðin hafi verið að kvarta undan Sjálfstæðisflokknum og sjálfstæðismenn verði bara að taka því enda hafi þeir svosem áður orðið fyrir áföllum í kosningum. Hann spáir þvi að það stefni í mikil átök milli stjórnarflokkanna en báðir flokkar séu óánægðir með sinn hlut eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir.

Samfylkingin tali nú um að hún sé stærsti flokkurinn en hún hafi ekki náð að rjúfa þrjátíu prósenta múrinn sem hún gerði mikið úr í kosningunum 2006. Þá hafi hún fengið minna fylgi en 2003.  Þetta sé eflaust mikill ósigur í hugum samfylkingarmanna og það sé enginn sigur að verða stærri en Sjálfstæðisflokkurinnn þegar hann hökti um í hlaupinu fótbrotinn á báðum fótum.

Kjartan  segir að hrakleg útreið sjálfstæðismanna í kosningunum eigi sér margar skýringar, Sjálfstæðisflokkkurinn hafi verið í ríkisstjórn þegar bankarnir hrundu í október í fyrra. Það hafi því verið hæg heimatökin að kenna flokknum um enda hafi hann verið áhrifamikill tvo áratugi. Samfylkingin hafi brugðist í stjórnarsamstarfinu, svikið Sjálfstæðisflokkinn og gefist upp fyrir skrílslátum á Austurvelli. Dapurleg tíðindi af styrkjamálum svokölluðums sem dunið hafi á á í kringum páskana, hafi ennfremur skaðað flokkinn mikið.

Kjartan segir að það hafi heldur ekki hjálpað til þegar hópur manna sem sumir hverjir hafi gegnt æðstu trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, hafi tekið sig til eftir landsfund flokksins og hvatt fólk til að kjósa aðra flokka, Þetta hafi þeir gert þegar ljóst varð að þeir höfðu orðið undir í atkvæðagreiðslu á fundinum  um aðild að Evrópusambandinu.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði á kosninganótt að ræða Davíðs Oddssonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði eyðilagt fyrir flokknum. Kjartan tekur ekki undir það og segir eðlilegt að Davíð hafi tjáð sig á þessum vettvangi eftir það sem á undan var gengið en nánast hafi verið mynduð ríkisstjórn í landinu til að hrekja hann úr starfi. Kjartan segist ekki hafa orðið var við annað en að flokksmenn hafi tekið ræðunni ágætlega. Auðvitað hafi ekki allir verið ánægðir, ekki þeir sem hafi verið fjallað um með gagnrýnum hætti í ræðunni. En það efist enginn um það í Sjálfstæðisflokknum að Davíð Oddsson segir ávallt hug sinn allan.

mbl.is