„Þakklátur fyrir stuðninginn"

Jón Gnarr oddviti Besta flokksins
Jón Gnarr oddviti Besta flokksins mbl.is

„Ég er bara þakklátur fyrir þennan stuðning og fyllist von fyrir hönd borgarinnar,“ segir Jón Gnarr oddviti Besta flokksins sem samkvæmt könnun Morgunblaðsins nær sjö mönnum inn í borgarstjórn. Hann segir Besta flokkinn til í að vinna með öllum flokkum sem vilja leggja hönd á plóg í borginni.

Kosningavefur mbl.is spurði Jón að því hvort stuðningur við flokkinn í skoðanakönnunum hafi komið flokksmönnum á óvart. „Þetta hefur vissulega komið mörgum skemmtilega á óvart. En ekki sjálfum mér, ég hef frá upphafi talið þetta nokkuð raunhæft.

Við erum að koma þarna inn til að vera til gagns, til að hjálpa. Þetta er fólk sem vill laga hlutina og er tilbúið að leggja sig fram. Þetta er mikil vinna og fólk fer ekki í svona baráttu nema það hafi brennandi áhuga á og ástríðu fyrir borginni,“ segir Jón Gnarr. 

Spurður um mögulegt samstarf við aðra flokka í borginni segist Jón ekki gera greinamun milli flokka. „Við erum til í að vinna með öllum sem eru með góðan vilja og eru til í að leggja hönd á plóginn, sama úr hvaða flokkum þeir koma."

Orkuveitan er alvarlegasta málið - gullkálfinum þarf að hjúkra

Jón segir Besta flokkinn hafa unnið heimavinnuna sína fyrir kosningar og hann sé reiðubúinn að takast á við stóru málin að loknum kosningum.

„Stærsta vandamálið sem við þurfum að takast á við eftir kosningar eru málefni Orkuveitu Reykjavíkur. Það er alvarlegasta málið og við munum mæta því af mikilli festu og undirbúningi. Það er mál sem verður að leysa í mjög nánu samstari við starfsfólk Reykjavíkurborgar. Þar er reynsla og þar er kunnátta til að leysa þetta eins farsællega og hægt er.

Orkuveitan er gullkálfurinn okkar. Hann er fárveikur og nú þarf að hjúkra honum og reyna að koma honum aftur til heilsu. Það krefst skapandi hugsunar og vinnu,“ segir Jón Gnarr.

Besti flokkurinn fengi sjö menn í borgarstjórn samkvæmt könnuninni.
Besti flokkurinn fengi sjö menn í borgarstjórn samkvæmt könnuninni.
mbl.is