Sögulegur stórsigur L-listans

Sex bæjarfulltrúar L-listans á kosningavöku í kvöld eftir að lokatölur …
Sex bæjarfulltrúar L-listans á kosningavöku í kvöld eftir að lokatölur voru birtar; Geir Kristinn Aðalsteinsson, Inda Björk Gunnarsdóttir, Oddur Helgi Halldórsson, Tryggvi Gunnarsson, Halla Björk Reynisdóttir og Hlín Bolladóttir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Listi fólksins fékk sex bæjarfulltrúa og náði hreinum meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar. Meirihlutaflokkarnir síðustu fjögur ár, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, guldu afhroð og fá aðeins einn mann hvor. Sjálfstæðismenn voru fjórir í bæjarstjórn og Samfylkingin hafði þrjá bæjarfulltrúa.

Gleði á Glerártorgi

Stemningin var að vonum frábær í kvöld á kosningavöku L-listans í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi, þar sem kosningaskrifstofan er. Efstu mönnum listans var gríðarlega vel fagnað þegar þeir mættu á staðinn eftir að fyrstu tölur voru birtar. Samkvæmt þeim fékk L-listinn hreinan meirihluta og þegar þær niðurstöður voru staðfestar með lokatölum braust út mikil gleði.

„Það er mikið verk framundan. Næstu fjögur ár verða erfið en gríðarlega skemmtileg,“ sagði Geir Kristinn Aðalsteinsson oddviti L-listans þegar hann ávarpaði fjölmarga samkomugesti eftir að bæjarfulltrúarnir sex voru hylltir uppi á sviði. „Við hefðum aldrei lagt í þetta ferðalag ef við hefðum ekki treyst okkur til þess að axla þessa ábyrgð. Nú reynir á að þétta hópinn enn frekar - en við spáum í það á morgun; nú skulum við skemmta okkur!“ sagði Geir.

Átta nýliðar í 11 manna bæjarstjórn!

Útkoma L-listans er stórmerkileg en ekki má gleyma þeirri staðreynd að í 11 manna bæjarstjórn á Akureyri setjast nú hvorki fleiri né færri en átta nýliðar.

Þrír náðu endurkjöri; Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, Sigrún Björk Jakobsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins og Oddur Helgi Halldórsson stofnandi og eini bæjarfulltrúi L-listans síðustu fjögur ár.

Nýliðarnir átta eru þessir:

Af L-lista; Geir Kristinn Aðalsteinsson, Halla Björk Reynisdóttir, Tryggvi Gunnarsson, Hlín Bolladóttir og Inda Björk Gunnarsdóttir. Einnig Guðmundur Baldvin Guðmundsson Framsóknarflokki, Andrea Hjálmsdóttir Vinstri hreyfingunni - grænu framboði og Sigurður Guðmundsson af Bæjarlistanum sem bauð fram í fyrsta skipti.

Lokaniðurstaða bæjarstjórnarkosninganna á Akureyri er þessi:

L-listi fólksins   45% - 6

Sjálfstæðisflokkurinn   13,3% - 1

Framsóknarflokkurinn   12,8% - 1

VG   10,4% - 1

Samfylkingin   9,8% - 1

Bæjarlistinn   8,7% - 1

Gífurlegur fögnuður braust út á kosningavöku L-listans þegar lokatölur voru …
Gífurlegur fögnuður braust út á kosningavöku L-listans þegar lokatölur voru birtar í sjónvarpinu í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Gleði á kosningavökunni í kvöld. Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, bróðir nýja …
Gleði á kosningavökunni í kvöld. Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, bróðir nýja oddvitans, Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir unnusta Sigurpáls Árna og Linda Guðmundsdóttir, eiginkona oddvitans nýja, Geirs Kristins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina