Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Sigríður Soffía Níelsdóttir
Sigríður Soffía Níelsdóttir
dansari og danshöfundur

Kynferðisofbeldi er daglegt brauð

Ég er svo heppin að vera umkringd jafnréttissinnum, ég hef alist upp með fólki sem horfir ekki á kyn heldur persónur og hæfileika. Ég gekk í Listaháskóla og hef í framhaldi unnið sem danshöfundur og dansari þar sem hæfileikar ráða stöðum og hlutverkum. Í dansinum starfa fleiri konur en karlar en í mörgum dansflokkum er kynjajöfnun karlkyninu í vil þar sem flestir vilja sjá bæði karla og konur á sviði.

Fjölskylda mín, vinir og samstarfsmenn eiga það sameiginlegt að finnast kynjamisrétti fjarlæg og fjarstæðukennd hugmynd. Því fannst mér ég labba á vegg þegar ég byrjaði að læra flug. Þar vorum við þrjár stúlkur í bekk a móti 20 strákum að læra fag sem áberandi fleiri karlmenn vinna við. Mér fannst það ótrúlegt að það væru til menn á mínum aldri sem væru svo þröngsýnir og gamaldags í viðhorfum. Mér fannst það hlægilegt að einhver talaði niður til mín vegna kyns, algjör tímaskekkja en um leið góð áminning um að jafnréttisbaráttan er ekki komin lengra en þetta. Ég tók það ekki til mín heldur tel ég þetta vera endurspeglun á því uppeldi sem þessir strákar hafa fengið, hvernig umhverfi þeirra hefur mótað þá.  Það er mikilvægt að við ölum börnin okkar upp með jafnrétti og virðingu að leiðarljósi. Það er okkar að kenna komandi kynslóðum. 

Ísland er þekkt fyrir sterkar og sjálfstæðar konur. Erlendis er talað um að Ísland sé besta land í heimi fyrir konur; öruggast og það land sem lengst er komið í jafnréttismálum. Við getum klappað okkur á bakið með það en við blasir þó sú staðreynd að nauðganir og kynferðislegt ofbeldi á Íslandi eru daglegt brauð. Hræðilegar tölur blasa við og eru Íslandi til skammar, ég gæti tekið saman fullt af skelfilegum tölum en staðreyndin er sú að ofbeldið er skelfilega nálægt okkur. Í grunnskóla var vinkonu minni nauðgað, í menntaskóla var annarri vinkonu minni nauðgað. Hún kærði, fór alla leið með málið, það var átakanlegt. Mál hennar var fellt niður og einhverjum mánuðum seinna var ráðist á hana af vinum brotamannsins, hvar er réttlætið? Þegar ég var 19 ára var þriðju vinkonu minni nauðgað af 2 mönnum og nýlega var litlu frænku minni nauðgað. Mig langar að gráta yfir þessari upptalningu. Þetta er ekki samfélag sem ég vil ala dóttur mína í. Dómar í nauðgunarmálum eru skammarlegir, hvaða skilaboð erum við að senda? Þetta þarf að breytast Í DAG! 

Það er mikilvægt að kjósa, það er mikilvægt að láta í sér heyra og hjálpa öðrum. Berum virðingu fyrir þeim konum sem ruddu brautina fyrir okkur, verum ekki værukær. Hættum að bíða eftir réttlæti og jafnrétti. Hættum að bíða eftir því að einhver rétti okkur eitthvað og tökum það sem við eigum rétt á - við verðum að hafa rödd. Ekkert gerist ef við látum lítið fyrir okkur fara. Sameinumst öll karlar og konur og hjálpumst að við að búa til betra samfélag, ef ekki fyrir okkur sjálf þá fyrir börnin sem koma á eftir okkur.