Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Anna Tara Andrésdóttir
Anna Tara Andrésdóttir
Reykjavíkurdóttir

Afturköllum kosningarétt efnaðra karla

Liðin eru 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Mér líður eins og ég eigi að vera þakklát fyrir kosningarétt minn. Sterkar konur lögðu hart að sér til að ég gæti kosið. Hins vegar fyllist ég gremju við tilhugsunina um þakklæti fyrir kosningarétt. Ég velti fyrir mér hversu margir karlmenn eru þakklátir fyrir kosningarétt sinn. Ég legg til að við jöfnum leikinn. Afturköllum kosningarétt efnaðra karlmanna í 72 ár. Það gæti jafnvel leyst efnahagsvandamál þjóðarinnar. Finnst þér þetta öfgafullt?

Af hverju að stoppa þar? Í ríkisstjórn ættu að vera eingöngu konur um tíma, síðan væri
hægt að bæta nokkrum körlum við en þeir yrðu aldrei meira en um 43% ráðherra og aldrei nokkurn tímann í meirihluta. Tekjuhæstu forstjórar landsins ættu að vera um 90% konur. Þá myndi eitthvað spennandi gerast. Æðstu stjórnendur fyrirtækja ættu að vera 90% konur og þannig stjórna efnahagsmálum í íslensku samfélagi. Kvikmyndagerð ætti að vera rekin af konum en þar væru þó um 15% karlar. Í tónlistarheiminum ættu konur að ráða ríkjum og stjórna tónlistarhátíðum, útgáfufyrirtækjum, félögum, ráðum og fleira. Miðum við að mest seldu plötur landsins verði um 86% plötur kvenna. Konur ættu að hafa yfirhöndina í fjölmiðlum. Íslensku tónlistarverðlaunin og Eddan ættu að vera sannkölluð „kvennafest“. Konur ættu að byrja ungar að undirbúa sig fyrir lífið með yfirtöku í Gettu Betur og Morfís. Karlar gætu loks sinnt umönnunarstörfum, þó á lágum launum. Konur mættu ekki skipta á börnum á leikskólum eða vera einar með þeim. Um 42% karla yrðu einhvern tímann fyrir ofbeldi, eða nei sleppum því. Enginn verður fyrir ofbeldi.

Þá myndu karlar líklegast fara hinar ýmsu leiðir til að öðlast meiri þátttöku í samfélaginu, svo sem að stofna félag karla í tónlist á Íslandi, halda sér verðlaunaathöfn fyrir karla í bókmenntum, stofna félag karla í atvinnulífinu, halda druslugöngu, hefja geirvörtubyltingu, halda þjálfunarbúðir fyrir stráka í Gettu Betur, stofna Strákar Rokka,
Reykjavíkursynir yrði til og þar frameftir götunum. Hlutirnir myndu hins vegar breytast hægt og í örvæntingu sinni myndu þeir innleiða kynjakvóta.

Konur myndu bregðast við þessum aðgerðum með því að segja körlum að hætta þessari fórnarlambsvæðingu og vera ekki að búa vandamálin til, þeir ættu að líta í eigin barm og velta fyrir sér hvort þeir væru ekki orðnir of öfgafullir, og meina það á mjög neikvæðan máta. Mögulega eru aðrar útskýringar fyrir málunum, svo sem að karlar séu ekki nógu metnaðarfullir og kröfuharðir í launamálum, kannski eru þeir ekki nógu menntaðir eða hafa önnur áhugamál. Síðan myndu konur benda körlum á að kynjakvótar hafi oft haft þær afleiðingar í för með sér að vanhæfara fólk verði ráðið til starfa því karlar hljóta einfaldlega að vera vanhæfari í flestu.

Kosningaréttur er byrjun en við eigum enn langt í land.