Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Nanna Hlíf Ingvadóttir
Nanna Hlíf Ingvadóttir
tónlistarkennari

Hvað hefur breyst á 100 árum?

Í minni fjölskyldu eru fjórar kynslóðir kvenna á lífi, fæddar 1909 - 1938 - 1970 - 1995 og 1997. Tvær elstu ólu mig upp og tvær yngstu eru á mína ábyrgð. Við höfum án efa ólíkar sögur að segja af upplifun okkar, ábyrgðartilfinningu og viðhorfi til kosninga.

Amma, Hlíf Böðvarsdóttir, var 6 ára gömul þegar konur fengu kosningarétt og því forvitnilegt að ræða við hana um upplifun hennar af kosningaþátttöku móður hennar og 10 systra sinna á þessum fyrstu árum. Faðir hennar var hreppstjóri og því virkur í stjórnmálum. Hann átti 11 dætur og einn son og því hlýtur það að hafa skipt hann miklu máli að ala dætur sínar upp sem ábyrga einstaklinga sem nýttu sinn nýfengna kosningarétt. Ég sé fyrir mér stoltan föður og hreppstjóra ríða til kosninga með konu sína og þær dætur sem voru komnar með aldur til að kjósa. Konur klæddar upphlut og svo er haldið kaffisamsæti þegar allir koma til baka búnir að greiða sitt atkvæði.

Ég ólst upp við sögur úr sveitinni, þegar fyrstu gúmmístígvélin komu, þegar konungurinn kom og margt annað sem hljómar framandi í eyrum barns sem fætt er 70 árum síðar við allt aðrar aðstæður. Það er því eðlilegt og líklegt að sú mynd sem ég dró upp hér að framan um kosningar í sveitinni sé rómantísk og líklega ýkt. Að sama skapi hlýtur það að vera rétt hjá mér að dætur mínar sjái engan mun á því hvort þær séu karlmaður eða kvenmaður þegar réttur til kosninga er til umræðu.

En þá er að sannreyna tilgátur sínar.

„Amma, hvernig ræddu foreldrar þínir við ykkur systur um kosningarétt ykkar? Var ekki lögð mikil áhersla á þið nýttuð hann? Fóruð þið ekki stoltar með pilsaþyt í söðli að kjósa?“

„Æ veistu, karlmennirnir voru helst að ræða þessi mál, við vorum ekki miklir þátttakendur í þeim umræðum. Ég held þó að mamma hafi nýtt sér kosningarétt sinn. Ég fór ekkert að hugsa um þetta fyrr en ég gifti mig og þá fylgdi ég manninum mínum í flokksvali.“

Þetta var nú ekki svarið sem ég átti von á og eiginlega bara óþægilegt. Ekkert rómantískt og alls ekki mikill kvennakraftur í þessu svari frá konu sem alla tíð hefur verið pólítísk og er enn, 106 ára. Á þessum árum var þetta þó svona og við höfum gott af því að átta okkur á því án þess að fella dóma.

Þess ber þó að geta að hér er ég að vitna í upphafsár ömmu sem kjósanda. Hún hefur verið sérlega virk í að láta í ljós skoðanir sínar, ég ólst upp við að fara í kosningakaffi og á kosningavökur ýmiskonar. Þegar hún var 95 ára (fyrir 11 árum) sagði hún með þunga, þar sem við sátum saman og biðum eftir að 17. júní messa hæfist: „Það er eitt sem ég þrái að upplifa áður en ég fell frá, [hér hugsaði ung dótturdóttir hennar að það hlyti að vera að sjá hana ganga sem brúði upp að altarinu], það er að kjósa einu sinni enn, ég er nefnilega búin að skipta um flokk!“

Nú eru aðstæður ungs fólks allt aðrar en fyrir 90-100 árum, ungmenni eru langskólagengin og finnst sjálfsagt að hafa rétt til að kjósa. Þetta er hin staðhæfingin sem ég gaf mér. Staðreyndin er því miður allt önnur, ungt fólk skilar sér ekki á kjörstað, mörg hver vegna óöryggis eða áhugaleysis. Við foreldrar viljum ekki hafa of mikil áhrif á skoðanir barna okkar og víst er að ung kona í dag myndi ekki endilega kjósa eins og maðurinn hennar eða foreldrar, það er hvorki nútímalegt né smart. En ef við skoðum málið aðeins, þá er það samt þannig að það er ekkert að því að mynda sér skoðanir með þeim sem maður treystir og finnst deila svipaðri lífsskoðun, hvort sem það er maki, foreldrar eða vinir. Það er afar erfitt að mynda sér heildstæðar skoðanir á öllu sem fer fram í stjórnmálunum. Ég er óhrædd við að taka við ráðum og skoðunum. Allra verst er hins vegar að mæta ekki á kjörstað.

Kannski er munurinn á ömmu og kynslóð dætra minna ekki svo mikill þegar allt kemur til alls!