Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Hödd Vilhjálmsdóttir
Hödd Vilhjálmsdóttir
almannatengill

Enginn fæðist án aðildar konu

Fyrsta skiptið í kjörklefanum, ég man það, spennan, stoltið og sú ljúfa tilfinning að finna að maður hefur áhrif á það líf sem maður vill búa sér til – hún var góð. Ég kaus eftir minni eigin sannfæringu út frá þeim upplýsingum sem ég hafði aflað mér. Kaus ég rétt? Já, ef tekið er tillit til þess lífs sem ég vil fyrir mig og mína. Voru allir í kringum mig sammála mínu vali? Örugglega ekki, en það skipti mig ekki máli því valið var mitt.

Lífið hefur upp á svo margt að bjóða og það er hægt að velja mismunandi leiðir á meðan á þessu skemmtilega, gjöfula og stundum erfiða og óútreiknanlega ferðalagi stendur. Kjósendur og daglegir samferðamenn hafa langt frá því allir sömu lífsgildi en ég ætla þó að leyfa mér að trúa því að þeir gangi til kosninga með hugmynd um hvernig má bæta hið daglega líf, sér og öðrum til heilla.

Í dag eru 100 ár liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi og er dapurt og í raun fáránlegt að hugsa til þess að konur hafi ekki mátt kjósa fyrir þann tíma. Enginn fæðist í heiminn án aðildar konu eða kemst í gegnum lífið án þess að verða fyrir áhrifum frá einni slíkri. Íslenskt samfélag hefur því síðustu 100 árin verið mun betra og sterkara.

Ég hef afskaplega mikla trú á hinu kyninu og blessunarlega fengið að hitta og eiga samskipti við marga góða, skemmtilega og vel gefna karlmenn í gegnum tíðina. Sumir hafa gert lífið litskrúðugara og ljúfara, aðrir dregið úr gleðinni en allir hafa þeir skilið eitthvað eftir sig. Vinur, bróðir, faðir, stjúpfaðir, yfirmaður, samstarfsmaður og maki. Þeir höfðu og hafa sumir hverjir ennþá áhrif á lífið mitt og annarra með skoðunum sínum og gjörðum og margir til hins betra.

Engan karlmann hef ég þó hitt sem er svo vel vitsmunum búinn og skynsamur að skoðanir hans ættu ósjálfrátt að teljast mikilvægari en skoðanir kynsystra minna. Engan heilbrigðan karlmann hef ég heldur hitt sem hefur haldið því fram að svo ætti að vera.

Það er deginum ljósara að lífið væri fátæklegra ef skoðanir karlmanna fengju ekki að heyrast eða þeir hefðu ekki rétt til að kjósa. Það er nefnilega ekki hægt að setja alla karlmenn undir sama hatt, ekki frekar en konur og það er einmitt það sem gerir lífið áhugavert. Karlmenn hafa mismunandi skoðanir og það hafa konur líka.

Ég á margar góðar vinkonur og kunningjakonur, sem sumar hverjar hafa svipaðar hugmyndir og ég um hvernig þær vilja haga sínu lífi og deila með mér stjórnmálaskoðunum. Aðrar eru algjörlega á öndverðum meiði og það kemur fyrir að málefni eru rökrædd fram og til baka. Þær rökræður enda oftar en ekki með því að ákvörðun er tekin um að vera sammála um að vera ósammála. Maður getur reynt að telja öðrum trú um eitthvað og lagt sig allan fram um að fá fólk inn á sína línu, en þegar öllu er á botninn hvolft er staðreyndin sú að mikið væri nú daglegt líf logandi leiðinlegt ef öll huguðum við og gerðum allt eins.

Ég spurði 11 ára dóttur mína um daginn hvort hún ætli að fara í lögfræði eins og mamma hennar gerði. Það stóð ekki á svörum frekar en fyrri daginn, hún hélt nú ekki. Ég man að það hríslaðist um mig vellíðunartilfinning yfir því að henni fannst hún ekki þurfa að segja já til að gera mér til geðs. Ég trúi því að við eigum að ala það upp í börnunum okkar, burtséð frá kyni, að skoðanir þeirra og langanir skipta máli og óhrædd eigi þau að viðra þær. Ég trúi því líka að við sem foreldrar verðum að leggja okkur fram við að hlusta, til þess að börnunum okkar finnist þau geta haft áhrif og viti að rödd þeirra fái að njóta sín. Ef við gerum það tel ég meiri líkur á að úr verði fullorðnir einstaklingar með gott sjálfsmat og þann styrk sem þarf til að standa með sér og skoðunum sínum. Allar raddir eiga að fá að heyrast og til þess að heimurinn okkar verði enn betri þarf samvinnu, þolinmæði og umburðarlyndi bæði karla og kvenna.