Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Áslaug Valsdóttir
Áslaug Valsdóttir
formaður Ljósmæðrafélags Íslands

Sumt hefur lítið breyst á 100 árum

Ég er 53 ára gömul og á minni ævi hef ég ekki kynnst öðru en því að hafa jafnan rétt til að kjósa og karlar í samfélaginu. Mér þótti það lengi vel sjálfssagt mál og hugsaði ekkert út í það að einhverjar konur í gamla daga hefðu þurft að berjast fyrir því að fá að kjósa og hafa þar með  jafn mikið um það að segja og karlar (það er að segja karlar sem áttu eignir því að eignalausir karlar höfðu líkt og konur ekki kosningarétt) hverjir næðu kjöri hverju sinni. Í gamla daga er ekki nema 100 ár aftur í tímann og í stóra samhenginu er það bara augnablik. Það er því rétt um augnablik síðan að konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt því fyrir 100 árum máttu aðeins konur sem orðnar voru 40 ára kjósa.

Í upphafi kosningaferils míns var ég ekkert sérstaklega að hugsa um nota þennan rétt minn og fór oft ekki á kjörstað og setti mig ekkert sérstaklega inn í þau mál sem verið var að kjósa um hverju sinni. Eftir því sem árin hafa liðið og ég hef öðlast meiri reynslu, þroska og samfélagsvitund þá sé ég hve þessi réttur er dýrmætur og hvað það skiptir miklu máli að nota hann, hvað það skiptir miklu máli að allir þegnar samfélagsins geti lagt sitt atkvæði á vogarskálarnar og haft um það að segja hvernig samfélag við viljum byggja.

Ég er ljósmóðir og í augnablikinu er ég formaður Ljósmæðrafélgs Íslands, félags þar sem allir félagsmenn eru konur. Ég hef í því samhengi hugsað mikið um jafnrétti og völd. Hverjir fara með vald og hvernig eru stöður metnar. Ljósmæðrafélag Íslands er örlítið yngra en kosningaréttur kvenna eða 96 ára. Félagið stendur nú í kjarabaráttu og verkföllum sem staðið hafa síðan 7. apríl. Krafan er að löng og ströng menntun ljósmæðra, sjálfsstæði og ábyrgð í erfiðu, krefjandi en skemmtilegu starfi verði metin til launa. Þegar litið er til baka yfir söguna eru til heimildir um baráttu ljósmæðra fyrir bættum launum og að fá starfið metið fyrir það sem það er – ábyrgðarmikið starf sem krefst þekkingar og færni en ekki eitthvað sem konur gera af góðmennsku og systurlegri skyldurækni og eiga skilið að fá einhverja smá umbun fyrir. Vel er skjalfest barátta Þórdísar Símonardóttur ljósmóður á Eyrabakka árið 1918 þar sem hún fer fram á laun sem hægt væri að lifa af en svar hreppsins er á þá lund að hún geti nú varla ætlast til að laun hennar verði svo rífleg að hún geti lifað á þeim eingöngu!!! Ennþá tæplega 100 árum síðar eru ljósmæður í ótrúlega áþekkum sporum þó að nær heil öld sé liðin.

Þegar ég lit til baka yfir söguna almennt þá finnst mér margt hafa þokast hægt í átt til jafnréttis en ég verð  ævinlega þakklát þeim konum sem  börðust gegn ríkjandi hefðum og  ruddu leiðina fyrir mig og aðrar konur til að fá að kjósa og ég mun nota þann rétt minn af alvöru og vel íhuguðu máli í hvert sinn sem færi gefst á því að hafa um það að segja hvernig málum verður skipað í þjóðfélagi okkar allra.