Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Erla Hlynsdóttir
Erla Hlynsdóttir
blaðamaður

Óþekkt er auðlind

Þegar ég byrjaði í grunnskóla tíðkaðist að skrifa í svokallaðar Minningabækur bekkjarfélaga sinna. Allir áttu eina bók og létu hana ganga. Þar svöruðu börn því hver var uppáhalds liturinn, hver væri þeirra besti vinur eða vinkona og hvað þau ætluðu að verða þegar þau yrðu stór. Fyrst skrifaði ég alltaf að ég ætlaði að verða hárgreiðslukona, því mamma er hárgreiðslumeistari.  Síðan fór mamma að vinna sem smurbrauðsdama og þá ætlaði ég að verða smurbrauðsdama. Við vorum tvær í bekknum sem áttum það til að metast um hvor okkar væri klárari og einn daginn kom sú stelpa með djarfan leik: Hún skrifaði að hún ætlaði að verða forseti. Ég var ekki lengi að yfirgefa smurbrauðsdrauminn og skrifaði næst þegar ég fékk Minningarbók í hendurnar að ég ætlaði að verða bankastjóri. Svona litum við raunsætt á framtíðina, litlar 8 ára stelpur. Við gátum orðið allt sem við ætluðum okkur.

Ég var 2ja ára þegar Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti Íslands og 18 ára þegar hún lét af embætti. Ég er því af þeirri kynslóð kvenna sem ólst upp við að kona gengdi æðsta embætti landsins. Það var ekki fyrr en seinna sem ég gerði mér grein fyri hvað það var merkilegt. Vigdís var fyrsta konan í heiminum sem varð forseti eftir þjóðaratkvæðagreiðslu og jafnaldrar mínir voru svo heppnir að halda bara að þetta væri sjálfsagt. Heppin, segi ég, því sem börn tókum við því sem sjálfsögðum hlut að kona gæti verið forseti. Auðvitað! Það var ekki fyrr en seinna sem við áttuðum okkur á því að kosning hennar var afleiðing langrar baráttu, baráttu sem raunar er enn í gangi.

Stundum gleðst ég innilega þegar dóttir mín er óþekk. Stundum, ekki alltaf. En stundum fyllist ég stolti þegar hún hlýðir mér ekki. Eins og þegar ég var búin að segja henni að hún mætti ekki fá nammi, og svo fór ég í sturtu og á meðan náði hún í stól sem hún notaði til að klifra upp á borð til að opna efsta eldhússkápinn og sækja sér nammi. Útsjónarsemi ber að fagna. Ég leyfi mér nefnilega að fullyrða að jafnréttisbaráttan væri ekki komin jafn langt og raun ber vitni nema vegna þess að sumar konur voru óþekkar. Þær neituðu að fara eftir reglunum.

Óþekkt er vanmetin auðlind. Hún er hreyfiafl. Konur vissu það ekki þá en með óþekkt sinni hófu þær byltingu. Óþekku konurnar kröfðust þess að fá að verða virkir samfélagsþegnar. Þær kröfðust þess að fá að leggja sitt á vogarskálarnar þegar kom að því að velja stjórn landsins. Þær ákváðu síðan að taka beinan þátt og voguðu sér að bjóða sig fram í sveitastjörnarkosningum og í kosningum til Alþingis. Þær neituðu að þegja þegar reynt var að þagga niður í þeim. Það voru óþekkar konur sem lögðu niður störf 24. október 1975, það voru óþekkar konur sem stofnuðu Kvennalistann og það voru óþekkar stúlkur sem birtu af sér brjóstamyndir til að frelsa geirvörtur kvenna. Óþekkt er svo margvísleg. Og ég ætla sannarlega að halda áfram að fagna í laumi óþekkt dótturinnar. Nema auðvitað hún ætli að verða bankastjóri. Þá verð ég mjög reið.