Gamlar reykingasvalir orðnar að blómstrandi Búbbluskála

Finnsson-fjölskyldan: Klara Óskarsdóttir, Óskar Finnsson, María Hjaltadóttir og Finnur Óskarsson.
Finnsson-fjölskyldan: Klara Óskarsdóttir, Óskar Finnsson, María Hjaltadóttir og Finnur Óskarsson. Ljósmynd/Aðsend/Óli Már

Finnsson Bistro er fjölskyldurekinn veitingastaður á frábærum stað í Kringlunni. Systkinin Klara og Finnur Óskarsbörn eiga og reka veitingastaðinn ásamt foreldrum sínum, Maríu Hjaltadóttur og Óskari Finnssyni.

Finnsson-fjölskyldan er einkar samrýnd og samheldin. Fjölskyldumeðlimir vinna saman og deila ábyrgðinni bróðurlega á milli sín. Fjölskyldan er ekki alls kostar óvön veitingahúsarekstri því samanlögð reynsla þeirra í bransanum spannar heila mannsævi og jafnvel gott betur. 

„Reynsla okkar á þessu sviði er komin yfir 90 ár,“ segir María og ber Finnsson Bistro þess merki. Hugsað hefur verið fyrir hverju smáatriði, hvort heldur það er í mat og drykk eða þægindum og þjónustu við viðskiptavini.

Umhverfið á Finnsson er einstaklega fallegt og notalegt.
Umhverfið á Finnsson er einstaklega fallegt og notalegt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum stolt af því hversu vel við vöndum okkur gagnvart viðskiptavinum alla daga,“ segir María. „Þín upplifun skiptir okkur máli,“ bætir Óskar við en hjónin hófu veitingahúsarekstur árið 1990 þegar þau opnuðu Argentínu steikhús.

„Veitingarekstur snýr að miklu leyti að því að lesa viðskiptavini. Þeir hafa misjafnar óskir og þarfir sem við reynum að uppfylla eins vel og við getum. Við höfum ástríðu fyrir persónulegri þjónustu. Þetta snýst allt um mannleg samskipti,“ segir Klara. 

Tveir ólíkir töfraheimar í sama rými. Þegar húma tekur eru …
Tveir ólíkir töfraheimar í sama rými. Þegar húma tekur eru gluggatjöldin á Finnsson dregin fyrir með tilheyrandi notalegheitum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir ólíkir töfraheimar mætast 

Fjölskyldan hefur næmt auga fyrir ásýnd og yfirbragði og er veitingastaðurinn innréttaður á einstaklega notalegan hátt sem án efa hámarkar upplifun matargesta. Að ganga inn á Finnsson Bistro er eins og að ganga inn í töfraheim sem einkennist af litskrúðugum blómum og ævintýralegu veggfóðri í bland við bast og mjúka litatóna.

„Við vorum í tvær vikur að festa blómin og hengja upp í loft en það var mjög skemmtileg fjölskyldustund. Okkur leiðist aldrei saman,“ segir Klara. „Við höfum fengið ómetanlega hjálp frá Guffa bróður og Sigrúnu og eins Sigga frænda sem sér um allt viðhald á staðnum.“

Hér hefur verið hugsað fyrir hverju smáatriðinu og nostrað við …
Hér hefur verið hugsað fyrir hverju smáatriðinu og nostrað við hvern krók og kima. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segja má að stemning veitingastaðarins breytist eftir að hefðbundnum opnunartíma Kringlunnar lýkur á daginn. Þá eru gluggatjöld dregin fyrir og við taka aukin og töfrandi notalegheit í ljósaskiptunum.

„Sumir segja að þetta sé eins og að ganga inn í aðra veröld,“ lýsir Óskar.

Fagmennska og gæði í fyrirrúmi

Hjá Finnsson starfa um 20 starfsmenn. Stór hluti starfshópsins er faglærður og góð viðbót við reynslubolta Finnsson-fjölskyldunnar.  

„Á Finnsson ættu allir að finna rétti við sitt hæfi, á sanngjörnu verði, í ofsalega huggulegu umhverfi,“ segir Óskar. Veitingastaðurinn státar af girnilegum matseðli sem kitlar bragðlaukana hjá ungum sem öldnum sælkerum. 

„Ef ég ætti sjálfur að lýsa matnum á Finnsson þá myndi ég segja þetta góðan, einfaldan og heiðarlegan mat - gegnheilan mat,“ segir Óskar.  

Veran í Búbbluskálanum er eins og að vera staddur erlendis.
Veran í Búbbluskálanum er eins og að vera staddur erlendis. Ljósmynd/Aðsend/Óli Már

„Það standast fáir kjúklingasalatið hans pabba. Það er langvinsælasti rétturinn á matseðlinum okkar,“ segir Klara og bætir við að börnin séu oftast hrifnust af krakkapastanu á barnamatseðlinum sem og sykurlausu eplakökunni.

„Við leggjum áherslu á að vera með framúrskarandi þjónustu. Gestum okkar hefur brugðið við, því þjónustan og gæðin eru mikil miðað við verðlagningu,“ segir Óskar. „Til dæmis veljum við að bjóða upp á tauservíettur. Það þykir okkur merki um ákveðinn gæðastaðal.“ 

„Svo er það líka betra fyrir umhverfið,“ bætir Finnur við og brosir. 

Á Finnsson fæst mesta úrval landsins af litlum búbbluflöskum. Búbbluskálinn …
Á Finnsson fæst mesta úrval landsins af litlum búbbluflöskum. Búbbluskálinn er sérlega huggulega innréttaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blómstrandi Búbbluskáli í hjarta Kringlunnar

Veitingastaðurinn Finnsson Bistro er staðsettur í hjarta Kringlunnar, þar sem Café Bleu var áður starfrækt. Þaðan eiga margir minningar. Á Finnsson má finna hluti sem áður tilheyrðu Café Bleu og gegna nú nýjum hlutverkum. Ber helst að nefna tertukæli sem hefur fengið nýtt hlutverk og er í dag notaður sem búbblukælir.

„Við erum með mesta úrval á landinu af búbblum eða kampa- og freyðivíni í litlum flöskum,“ segir Finnur en á Finnsson Bistro er hinn margrómaði Búbbluskáli mikið aðdráttarafl. 

„Þetta eru gömlu reykingasvalirnar á Café Bleu sem búið er að byggja yfir. Mamma hannaði Búbbluskálann. Búbblur eru sérstakt áhugamál hjá henni,“ segir Klara og hlær.

Búbbluskálinn er staðsettur innst á veitingastaðnum og er blómlegt þar um að litast.

„Hingað koma gjarnan vinkonur eða hjón og fá sér eitt glas af búbblum. Margir hafa lýst því yfir að veran í Búbbluskálanum sé eins og að vera í útlöndum,“ segir María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert