Jóladagatal, svissnesk tálsýn og íslenskur súrrealismi

Í fjórða þætti Lestrarklefans á Storytel kennir ýmissa grasa. Salka Sól Eyfeld les upp úr jóladagatali Storytel, Sögur fyrir jólin eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur. Rebekka Sif hitti Rannveigu Borg höfund bókarinnar Tálsýn. Katrín Lilja Jónsdóttir og Díana Sjöfn Jóhannsdóttir ræða svo við Rebekku Sif um smásagnasafnið Svefngríman eftir Örvar Smárason. Einnig velta þær fyrir sér jóladagatali Storytel, Sögur fyrir jólin.

Róandi hversdagssögur í jólabúningi

Flest börn kannast við sögur Evu Rúnar, Sögur fyrir svefninn. Í jóladagatalinu heldur Eva Rún sig við rólegar hversdagssögur, en þó með aðeins fjörlegra ívafi. „Salka Sól er með alveg einstaklega róandi rödd,“ segir Katrín Lilja Jónsdóttir um upplestur Sölku Sólar og segir að í dagatalinu megi finna „rólegar hversdagssögur.“

Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, rithöfundur og menningarfræðingur, var ánægð með Sögur fyrir jólin. „Mér finnst þetta mjög skemmtilegt konsept, að það opnist ný saga á hverjum degi,“ segir Díana Sjöfn.

Nöpur mynd af stöðu kvenna

Rannveig Borg sló í gegn með bókinni sinni Fíkn sem kom út árið 2021. Rebekka Sif hitti Rannveigu á meðan hún var stödd hér á landi. Sögusviðið í annarri skáldsögu hennar, Tálsýn, er Sviss og má þar finna frekar napra mynd á stöðu kvenna þar í landi.

Í Tálsýn er Rannveig óhrædd við að fjalla um erfið málefni, kynferðisofbeldi, átraskanir og eitruð samskipti í samböndum. „Ég er fer svolítið inn í bókina, inn í söguna, þannig þetta verður mjög raunverulegt fyrir mig og ég get farið í tilfinningarússíbana að skrifa um suma hluti.”

Einstök hljóðbók

Smásagnasafnið Svefngríman eftir Örvar Smárason var einnig tekin fyrir af gagnrýnendum Lestrarklefans. „Það er einhver raunsær absúrdismi í öllum sögunum, en þær eru ólíkar en þær skapa mjög góða heild. Mér finnst honum takast einkar vel til og ég var mjög hrifin af þessu smásagnasafni. Það er líka mjög gaman að hlusta á smásagnasafn, það er eitthvað sem ég hef aldrei prófað áður,“ segir Díana Sjöfn, kampakát með hljóðbókina.

Að lokum mæla þær stöllur með hljóðbókum sem vert er að hlusta á. Þáttastjórn er í höndum rithöfundarins Rebekku Sifjar Stefánsdóttur sem er einnig aðstoðarritstjóri www.lestrarklefinn.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert